145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur fyrir andsvarið. Það er rétt sem kemur fram að þeir aldraðir sem búa einir eða halda einir heimili fá 280 þús. kr. hækkun og upp í 300 þús. kr. Hins vegar verðum við að gera okkur grein fyrir að kerfisbreytingin vegna þeirra sem halda einir heimili, og auðvitað líka til þeirra sem eru í sambúð með öðrum, hefur jákvæð áhrif á samspil annarra tekna úr lífeyrissjóðum, vegna fjármagnstekna, vegna atvinnutekna. Það munu allir einstaklingar koma betur út úr þessu nýja kerfi, eða þeir sem hafa ekki aðrar tekjur sem eru hærri en 450–500 þús. kr. á mánuði, þannig að allir einstaklingar koma betur út úr kerfinu en áður. Þetta eru mikilvæg skref, ein stærstu skref sem stigin hafa verið til bóta í almannatryggingakerfinu í mjög langan tíma. Hér hefur meiri hluti velferðarnefndar ákveðið að bregðast við ákalli frá m.a. Landssambandi eldri borgara. Þeir hafa lýst ánægju sinni með þessi mikilvægu skref, kallað eftir því að Alþingi samþykki breytingarnar. Síðan þurfum bara að halda áfram að bæta í kerfið á nýju þingi. En þetta eru mikilvæg skref og komið til móts við aukinn kostnað þeirra einstaklinga sem halda einir heimili.