145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:55]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er með samhljóma spurningu og ég var með hér áðan til hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur þegar kemur að því af hverju sá bótaflokkur sem nefndur er heimilisuppbót er hækkaður umfram annað. Ég skil vel að hækka þurfi bætur, en mér finnst svolítið ósanngjarnt að hækka þennan bótaflokk umfram annað. Þetta er sá flokkur sem skerðist hvað mest ef ég skil rétt, þetta er sá bótaflokkur sem er líklegastur til þess að verða fyrir skerðingum fyrst og mest. Ég skil ekki alveg af hverju verið er að fara þessa leið.

Mig langar til að fá að vita hvaða umræða var í nefndinni um þetta: Af hverju er þessi leið farin? Ég vil fá að vita hvaða röksemdafærslur liggja þar að baki. Mig langar til að vita hvort hv. þingmaður getur gert grein fyrir því. Ég skil vel að allt er dýrt á Íslandi, það er dýrt að vera bæði öryrki og dýrt að vera aldraður á Íslandi. Ellilífeyrisþegar eru kannski ekki líklegir til þess að eiga endilega digra sjóði eða vinnandi maka eða þar fram eftir götunum. Af hverju er hækkunin ekki bara fyrir alla? Af hverju er þessi eini hópur tekinn út fyrir sviga? Eru málefnaleg rök þar að baki? Ef svo er, hver eru þau og fengu þau nægilega umfjöllun í nefndinni?