145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:00]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta er dálítið illskiljanlegt. Og heimilisuppbótin er hluti af lögum um félagslega aðstoð og er til að tryggja framfærslu fyrir lífeyrisþega sem búa einir og eru með lágar tekjur. Það finnst mér sjálfsagt. En auðvitað eiga allir að hækka hlutfallslega jafn mikið þegar greiðslur í almannatryggingakerfinu eru hækkaðar.

Varðandi sviðsmyndir þá óskuðu fulltrúar minni hlutans eftir sviðsmyndum. Þetta var náttúrlega gert á svo miklum handahlaupum. Þessar breytingartillögur komu inn eftir að starfsáætlun þingsins var fallin úr gildi. Við óskuðum eftir sviðsmyndum en þær komu ekki.

Það er líka þannig að þessi ríkisstjórn er ekki mikið að veita aðgang að gögnum sem sýna þann ójöfnuð sem hún er að skapa með aðgerðum sínum. Hér er verið að auka á ójöfnuð. Hver vill sýna sviðsmynd af því? Í gær var kvartað yfir því að ekki væri búið að skila skýrslu um áhrif leiðréttingar á verðtryggð húsnæðislán á mismunandi tekju- og eignahópa. Af hverju skyldi það vera? Jú, af því það mundi sýna sig að það voru þeir efnamestu sem græddu langmest á þeirri aðgerð. Síðan hefur þessi ríkisstjórn vogað sér að skreyta sig með fjöðrum fyrri ríkisstjórnar sem jók jöfnuð í landinu og notaði á grundvelli talna frá þeim árum frasa um að hún væri að auka á jöfnuð í íslensku samfélagi. Hvílík öfugmæli. (Gripið fram í.) Hér er talað um almennar aðgerðir, aðgerðir þessarar ríkisstjórnar; þessi er bara í anda annarra, hún eykur hér á öjöfnuð.