145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:20]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar sem er einhver mesta breyting sem gerð hefur verið á almannatryggingakerfinu í áratugi. Ég hygg að allir þingmenn, sama úr hvaða flokki við komum, hljóti að geta tekið undir að hér er verið að hrinda í framkvæmd verki er viðkemur eldri borgurum sem menn hafa reynt að hrinda í framkvæmd í áraraðir en ekki tekist. Það eitt er alveg sérstakt gleðiefni og fyrir það eitt ættu þingmenn allir að kætast. Ég ætla líka að óska eldri borgurum til hamingju að því gefnu að frumvarpið nái fram að ganga.

Frumvarpið byggir á vinnu nefndar sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði árið 2013 undir forustu Péturs heitins Blöndals og hafði það verkefni fyrst og fremst að einfalda kerfið, gera það gagnsærra, gera það skiljanlegra og réttlátara. Þessar kerfisbreytingar áttu að ná annars vegar yfir eldri borgara og hins vegar yfir tryggingakerfi öryrkja, eða lífeyrisréttindum öryrkja. Því miður tókst ekki samstaða um að hrinda þeim kerfisbreytingum í gegn sem viðkomu öryrkjum. Það er miður vegna þess að ég er sannfærður um það að vegna þessa hefur hagur öryrkja ekki batnað með sama hætti og hann hefði annars gert ef samstaða hefði náðst um að gera þær breytingar sem nefndin lagði fram varðandi einföldun kerfisins og upptöku starfsgetumats.

Ég get hins vegar skilið að hluta til áhyggjur öryrkja og Öryrkjabandalagsins af þessum kerfisbreytingum, en það hlýtur að vera næsta stóra verkefni þeirra þingmanna sem setjast á Alþingi eftir kosningar að taka til hendinni, vinna að þessum kerfisbreytingum, einfalda kerfið er viðkemur öryrkjum með það að leiðarljósi fyrst og fremst að bæta hag öryrkja og bæta sérstaklega hag þeirra sem lökust hafa kjörin þannig að við getum verið stolt af því stuðningskerfi sem við byggjum upp. Því miður er núverandi kerfi ranglátt og það refsar öryrkjum. Því þarf að breyta og innleiða hlutabótakerfi örorkubóta með starfsgetumati en það verður aldrei gert öðruvísi en í góðri samvinnu við þá sem eiga að njóta. Það er mikilvægt.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir beinist því fyrst og fremst að kerfisbreytingu er viðkemur ellilífeyri og málefnum eldri borgara og almannatryggingum og er í rauninni í ágætu framhaldi og í beinu framhaldi af stefnu sitjandi ríkisstjórnar. Menn gleyma því nefnilega oft að fyrsta verk ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks strax í júlí 2009 var að draga til baka skerðingar á réttindum frá 2009. Það var fyrsta verk og varðaði lífeyrissjóðstekjur sem skertu grunnlífeyri elli- og örorkuþega. Síðan hefur verið hægt og bítandi, stundum of hægt, unnið að því að bæta kjör bæði eldri borgara og öryrkja. Á þessu ári verða útgjöld almannatrygginga líklegast um 27–28 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum 2013 sem eru síðustu fjárlög síðustu ríkisstjórnar, Samfylkingar og Vinstri grænna.

Þessu til viðbótar koma síðan einhverjar mestu kjarabætur sem um getur í áraraðir er viðkoma þessum kerfisbreytingum og líka það að tryggja öryrkjum sambærilegar kjarabætur og eldri borgurum upp á 10 milljarða eða gott betur, þannig að við sjáum gríðarlega aukningu á útgjöldum til almannatrygginga. Þar skiptir auðvitað máli að við ráðstöfum þeim fjármunum af skynsemi, vegna þess að þeir eru gríðarlegir.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, fá að vitna í grein sem Haukur Ingibergsson skrifaði í Morgunblaðið 12. september sl., þar sem hann gerir að umtalsefni þær breytingar sem við erum núna vonandi að ganga frá. Þar segir hann orðrétt, með leyfi forseta:

„Meðal þeirra sem ályktað hafa um frumvarpið er Öldrunarráð Íslands sem segir: „Öldrunarráð fagnar framkomnu frumvarpi um breytingu á almannatryggingum. Í frumvarpinu felast mikilvægar breytingar í auknum réttindum eldra fólks og sjálfsákvörðunarrétti eldra fólks, einkum þegar kemur að starfslokum. Öldrunarráð hvetur Alþingi til að vinnu við frumvarpið ljúki á þessu þingi og það verði að lögum.““

Um það verður ekki deilt að það sem við erum að gera er að einfalda lífeyriskerfi almannatrygginga og tryggja að einmitt eldri borgarar, en þá kannski ekki síður þingmenn greinilega, skilji kerfið þannig að við þurfum ekkert að velkjast í vafa hvernig það virkar og hvað það þýðir að breyta einstökum þáttum innan kerfisins. Ég skil það vel að það getur reynst erfitt að skilja og stundum er það jafnvel óskiljanlegt hvernig hlutirnir eru settir saman og hvaða áhrif hin minnsta breyta hefur á hag hvort heldur er eldri borgara eða öryrkja. Í núverandi kerfi er stundum eins og ranglætið sé við stýrið þar sem fólki er refsað og refsað fyrir hina minnstu viðleitni til að bæta sinn hag. Þessu erum við að breyta er viðkemur eldri borgurum og þessu verðum við að breyta þegar kemur að öryrkjum. Það skiptir verulega miklu máli.

Það verður þó að hafa í huga að allar breytingar sem við gerum á almannatryggingakerfinu, allar breytingar sem fela í sér einföldun og meira gegnsæi, mega aldrei verða þannig að gengið sé gegn meginmarkmiðum almannatryggingalaganna. Meginmarkmiðið er auðvitað að standa þétt við bakið á þeim sem lakast standa þannig að allir geti lifað sómasamlegu lífi, lifað lífinu með mannlegri reisn eins og við segjum í Skagafirði. Það er auðvitað það sem þingmenn sem koma hér til starfa að loknum kosningum verða að hafa í huga þegar þeir taka til við að gera þær breytingar sem ég held að við öll hér inni hljótum að vera sammála um þegar kemur að öryrkjum.

Þessu tengt finnst mér rétt að vekja athygli á því að það er líka annað stórmál sem bíður nýs Alþingis. Því miður auðnaðist hv. alþingismönnum ekki að koma á jafnrétti í lífeyrisréttindum landsmanna. Í september sl. bárust þær gleðifréttir að tekist hefði samkomulag um samræmt lífeyriskerfi þar sem tryggja átti öllu launafólki sambærileg lífeyrisréttindi óháð því hvort það starfar á almennum vinnumarkaði eða hjá hinu opinbera. En það liðu ekki margir dagar þangað til að það byrjaði að molna út úr samkomulaginu og það varð til þess að við náum ekki fram einhverju mesta réttlætismáli, sem er jöfnun lífeyrisréttinda landsmanna. Vandinn er auðvitað sá að á komandi árum mun ríkissjóður því miður hafa mjög takmarkað bolmagn til þess að taka þátt í að jafna lífeyrisréttindum eins og gengið var út frá í samkomulaginu og gengið var út frá í því frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi. Glugginn til þess að koma þessu réttlætismáli á og jafna lífeyrisréttindin er að lokast.

Ég trúi því og treysti að nýjum þingmönnum takist að koma þessu réttlætismáli í gegnum þingið áður en nýtt ár gengur í garð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þetta eru þær heitstrengingar sem ég held að allir þingmenn ættu að gera áður en þeir koma hér til starfa að loknum kosningum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég hins vegar ítreka að það sem við erum að gera hér er varðar eldri borgara er stórkostlegt framfaramál. Þetta er kerfisbreyting sem við höfum reynt að koma á, hefur ekki tekist, en það er núna að takast. Okkur getur greint á um einstaka liði eða einhverjar upphæðir, en það breytir ekki því að kerfisbreytingin er stórkostlegt framfaraspor og menn mega ekki gleyma því.