145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir ræðuna. Okkur greinir á um ýmislegt í pólitík og við höfum oft ólíka sýn á það hvernig eigi að útfæra hlutina, en ég tel enga ástæðu til þess að draga það í efa að hv. þingmanni sé full alvara með því þegar hann segist vilja bæta kjör lífeyrisþega í landinu þó svo að við séum ekki sammála um hvernig eigi að gera það.

Mér finnst mikilvægt að byrja á að segja vegna þess að hv. þingmaður vísaði í ræðu sinni í nefnd sem var starfandi um breytingar á almannatryggingakerfinu, lengst af undir forustu hv. fyrrverandi þm., Péturs heitins Blöndals, að það er auðvitað þannig að þegar verið er að leggja til kerfisbreytingar þá skrifar maður ekki undir plögg sem maður telur leiða til þess að staðan verði verri og að grunnvelferðarkerfið sem hópur í viðkvæmri stöðu þarf að reiða sig á verði verra. Það er auðvitað þess vegna sem ég og fleiri sem áttum sæti í þessari nefnd skrifuðum ekki undir en vorum á séráliti með Öryrkjabandalaginu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem er mjög áfram um að komið verði á starfsgetumati, hvernig hann rökstyðji það að hækkunin til öryrkja, (Forseti hringir.) þ.e. til að ná framfærslu þeirra upp í 280 þús. kr., sé (Forseti hringir.) öll tekin inn í gegnum sérstöku framfærsluuppbótina sem ég hélt að við værum öll sammála um að væri mjög atvinnuletjandi.