145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:44]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Við verðum kannski að taka stuttan töflufund, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þannig að hann skilji nú aðeins kerfið. (Gripið fram í.) Má ég þá benda honum á og hann ætti kannski að rifja upp að hann var flutningsmaður að frumvarpi að breytingum á almannatryggingalögunum sem eru svipaðar og þær sem við erum að gera hér í dag (Gripið fram í.) og byggðu á Árnanefndinni svokölluðu.

Það sem ég var að segja, hv. þingmaður, er að við erum einmitt búin með þessum breytingum að tryggja það að skerðingin króna á móti krónu heyrir sögunni til þegar kemur að eldri borgurum. Við eigum eftir að gera þessar breytingar þegar kemur að öryrkjum vegna þess að okkur tekst ekki og náum ekki saman um það að gera þær nauðsynlegu kerfisbreytingar sem þarf þegar kemur að öryrkjum. Með þessum breytingum er verið að bæta hag mikils meiri hluta eldri borgara. Það eru fyrst og fremst þeir sem hafa mjög háar tekjur sem koma kannski verr út eða bera lítið úr býtum. Það er auðvitað jafnaðarmennskan, hv. þingmaður, að reyna að tryggja að kjör þeirra sem lakast standa séu bætt. En við höfum ekki of miklar áhyggjur af þeim sem lifa bara alveg ágætu lífi og þurfa ekki neina sérstaka aðstoð úr sameiginlegum sjóðum okkar skattgreiðenda.