145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég lít svo á að það sé stór dagur í dag. Við erum að taka til umræðu og vonandi atkvæðagreiðslu þetta stóra mál um almannatryggingar sem felur í sér kerfisbreytingu á kerfi sem var illskiljanlegt flestum þeim sem inni í því hafa verið. Það er ekki hægt að fjalla um þetta mál án þess að minnast látins félaga okkar, Péturs H. Blöndals, sem barðist mjög fyrir kerfisbreytingum að þessu leyti og á stóran þátt í því að við erum komin með þetta mál til afgreiðslu á Alþingi Íslendinga.

Ég hitti þann ágæta félaga minn rétt áður en hann féll frá og lofaði honum að fylgja málinu úr hlaði og klára það fyrst hann gæti ekki gert það sjálfur og þess vegna er frábært að fá að standa hér og taka þátt í lokaafgreiðslu málsins.

Nú hef ég heyrt það í fjölmiðlum að ýmsir telja að sumir flokkar berjist fyrir kerfisbreytingum og aðrir ekki. Ég held að maður eigi ekki að berjast fyrir kerfisbreytingum einungis kerfisbreytinganna vegna heldur taka slagi sem eru mikilvægir, breyta þar sem breytinga er þörf, og almannatryggingakerfið er svo sannarlega slíkt kerfi. Við sjálfstæðismenn erum stoltir af því að taka þátt í því að afgreiða þetta mál með ágætum félögum okkar úr vonandi öllum flokkum.

Það varpar hins vegar smá skugga á þetta að öryrkjar eru ekki með í kerfisbreytingunum að þessu sinni en vonandi verður það klárað hið fyrsta, eins fljótt og hægt er.

Það er frægt að ríkisstjórnin kynnti að leið hennar til að bæta kjör aldraðra og öryrkja mundi koma á kjörtímabilinu og þetta er okkar leið. Við erum hér, eftir breytingar meiri hlutans í velferðarnefnd, að bæta 11 milljörðum í kerfið. 11 milljarðar kr. eru gríðarlegir fjármunir. Ég vonast svo sannarlega til þess að þetta mál fái skjóta og góða afgreiðslu í þinginu, enda er þetta gríðarlega góð breyting og mikil kjarabót fyrir þá aldraða og öryrkja sem hafa fengið lægstar bætur úr kerfinu, þótt að auðvitað fái aldraðir meira út úr því vegna þess að kerfisbreytingin nær til þeirra að fullu.

Kæri forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra og hvet þingheim allan til þess að standa saman um þetta mál.