145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[16:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi ekki verið að hlusta vel ef hann telur að við sem erum í minni hluta á Alþingi séum að setja okkur á einhvern hátt upp á móti því að lagðir séu til auknir peningar í almannatryggingakerfið. Það gæti ekki verið fjær því. Það sem við höfum hins vegar gagnrýnt er með hvaða hætti, inn í hvaða bótaflokka þeir fjármunir eru settir, og teljum við að hægt væri að gera þetta öðruvísi sem mundi þá gagnast mun fleirum. Það er út á það sem breytingartillögur okkar í minni hluta hv. velferðarnefndar ganga.

Það mátti skilja það þannig, og ég er ekki viss hvort ég hafi skilið það rétt, í máli hv. þingmanns að það sé vegna þess að Öryrkjabandalagið skrifaði ekki upp á þær tillögur sem lagðar voru til í nefnd um endurskoðun á almannatryggingakerfinu um starfsgetumat sem breytingartillögur meiri hlutans og aukið fjármagn koma inn í sérstöku framfærsluuppbótina, þ.e. þann flokk bóta sem skerðist krónu á móti krónu og er þess vegna með 100% skerðingarhlutfall. Telur hv. þingmaður að það séu tengsl (Forseti hringir.) á milli þess hvernig Öryrkjabandalagið skilaði af sér inn í þessari nefnd og þess hvernig (Forseti hringir.) verið er að setja peninga inn í þennan bótaflokk hérna?