145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[16:09]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir andsvarið. Ég vil byrja á því að þakka henni fyrir samstarfið í velferðarnefnd, það hefur verið mjög ánægjulegt og gott. Þótt við séum ekkert alltaf sammála um alla skapaða hluti hef ég fundið það hvað hún ber hag þessa fólks mikið fyrir brjósti, við gerum það bæði og nefndin öll. Ég þakka henni fyrir fyrirspurnina.

Varðandi bótaflokkana og hvort það hafi verið vegna þess að Öryrkjabandalagið skrifaði ekki undir samning sem við settum þessa fjármuni inn í sérstöku framfærsluuppbótina þá held ég að það hafi alls ekki verið. Þetta var bara sú leið sem var talin eðlilegust að fara. Við gættum að því í þessari lagasetningu að mikilvægast væri að hækka þá sem lægst hefðu launin og að hækkunin mundi ekki ná upp allan stigann, þess vegna fórum við þær leiðir sem við gerðum í því, bæði þegar við hækkuðum einstaklinga og öryrkja. En það er alveg ljóst, og hv. þingmanni er það mjög kunnugt, að vegna þess að Öryrkjabandalagið hafði ekki skrifað undir samning gátum við ekki farið sömu leið og með eldri borgarana og þeir búa enn þá við þann ömurlega kost að vera skertir krónu á móti krónu í því sambandi. Ég trúi því aldrei og geri ekki ráð fyrir því að nokkrum manni hafi dottið það í hug að vera að hegna þeim fyrir að halda fram hagsmunum Öryrkjabandalagsins í samningum við ríkissjóð. Ég trúi því aldrei. Auðvitað tekst fólk á um það, en það er líka mikilvægt að í slíkum samningum hafi fólk hagsmuni allra í huga. Við munum aldrei fá allt en við munum fá eitthvað og mikilvægt er að ná samningum sem fyrst við Öryrkjabandalagið.