145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[16:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Eins og ég sagði var ég ekki viss um hvernig hefði átt að skilja orð hans í ræðu, þess vegna er gott að hann kom upp og útskýrði þetta enn frekar.

Það kom mjög skýrt fram í nefnd um endurskoðun á almannatryggingakerfinu frá m.a. Öryrkjabandalagi Íslands, Þroskahjálp sem og fulltrúum okkar í minni hlutanum á þingi að við höfum áhyggjur af því að fólk með skerta starfsgetu eigi erfitt uppdráttar á vinnumarkaði og það geti verið erfitt fyrir þann hóp að fá vinnu.

Það var hins vegar vilji meirihlutaflokkanna í þessari nefnd að taka upp hlutabótakerfi sem byggði á því í grunninn að fólk hefði vinnu og þyrfti þess vegna á minni greiðslum úr almannatryggingakerfinu að halda. Auðvitað er það eitthvað sem við viljum að ég held öll stefna að og teljum vera til fyrirmyndar. En vegna þess að þær áhyggjur hafa komið fram langar mig að spyrja hv. þingmann hvort það skjóti ekki skökku við að í breytingartillögum meiri hlutans sé lagt til að auka vægi þess bótaflokks sem hefur 100% skerðingarhlutföll og sem dregur algjörlega úr hvatanum (Forseti hringir.) til þess að leita sér vinnu. Í rauninni (Forseti hringir.) sjáum við því enn síður hvort (Forseti hringir.) þeir sem vilja fara út á vinnumarkaðinn fái vinnuna. (Forseti hringir.) Það hefðu nefnilega verið upplýsingar sem væru (Forseti hringir.) okkur mjög dýrmætar í því að þróa áfram hugmyndir um starfsgetumatið.