145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[16:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get þá haldið áfram þar sem frá var horfið. Þegar svona stórt og mikilvægt kerfi er til umræðu dugar manni tíminn oft skammt. Ég var í lok máls míns að fjalla um að hækkun á lífeyristökualdri og sveigjanleg starfslok yrði að skoða heildstætt. Ég geld mjög mikinn varhuga við því að verið sé að hækka lífeyrisaldur í einu kerfi en ekki í öðru kerfi á sama tíma. Það er í rauninni alveg sambærilegt við það sem ég sagði í 1. umr. um frumvarp um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna, þ.e. að það frumvarp þyrfti að skoða í tengslum við þetta frumvarp. Nú erum við komin í þá stöðu að ég segi núna: Vegna þess að við getum ekki lokið hinu málinu verðum við einnig að bíða með hækkun á lífeyristökualdri í þessu kerfi. Þessi mál verður að skoða heildstætt. Til að mynda hafa komið fram kröftug mótmæli frá Alþýðusambandi Íslands vegna þessa þar sem meðal annars er bent á að ef í þessu frumvarpi yrðu samþykktar breytingar á lífeyristökualdri mundi munurinn aukast enn meira frá því sem nú er, þ.e. lífeyristökualdri opinberra starfsmanna annars vegar og starfsmanna á almennum markaði hins vegar. Það tel ég að sé mjög bagalegt og geti einfaldlega komið okkur sem samfélagi í mjög erfiða stöðu.

Svo var það fyrirvari okkar Vinstri grænna sem ég ætlaði að fara nokkrum orðum um. Þar er best að byrja aðeins framar og segja frá því að minni hlutinn í velferðarnefnd styður breytingartillögu meiri hlutans hvað varðar það að fella á brott 11. gr. frumvarpsins, en þar er kveðið á um skert réttindi lífeyrisþega í fangelsum til ráðstöfunarfjár. Ég er afar ánægð með að tekist hafi samstaða um það í nefndinni og tek undir þau orð sem hér hafa fallið um að gera þurfi að heildarendurskoðun á kerfinu.

Þá að fyrirvaranum. Í 18. gr. frumvarpsins er talað um að við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að ráðherra muni skipa starfshóp til að útfæra tilraunaverkefni varðandi hjúkrunarheimili um nýtt fyrirkomulag á greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Ég held að það þurfi í sjálfu sér ekki að vera slæmt. En það fer eftir því hvernig að því er staðið, það er algert grundvallaratriði. Að því lýtur fyrirvari okkar í VG. Ég ætla að fá að lesa hann upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerir fyrirvara við þessa grein frumvarpsins og breytingartillögu meiri hlutans sem heimilar sveitarfélögum að innheimta þjónustugjöld. Fyrirvarinn lýtur að því að engin útfærsla liggur fyrir um möguleg áhrif aðstöðumunar lífeyrisþega vegna kjara. Breytingin kynni að valda því að sumir íbúar hjúkrunarheimila hefðu ekki efni á mikilvægri þjónustu auk þess sem áhrif slíkra breytinga á rekstrarform hjúkrunarheimila eru óljós.“

Til að nefna nokkur dæmi um það sem íbúar á hjúkrunarheimilum eiga að greiða milliliðalaust fyrir er til að mynda matur, tómstundastarf, húsaleiga, þrif og þvottar. Það má auðvitað alls ekki gerast að fólk sem býr á hjúkrunarheimili verði að neita sér um þrif á íbúðinni eða herberginu sínu vegna bágra efnahagslegra aðstæðna á efri árum. Og þar sem matur er meðal annars talinn upp velti ég því upp: Þýðir það að ef maður hefur ekki efni á öðru gæti maður ákveðið að fá mat annan hvern dag? Það eru slíkir þættir sem hafa verður í huga í þessu tilraunaverkefni. Ég held að í raun vilji ekkert okkar fara með samfélag okkar á þann stað að íbúar á hjúkrunarheimilum búi við þær aðstæður að þeir geta ekki leyft sér brýnustu nauðsynjar eins og mat, þrif og þvott.

Að öðru leyti hef ég hér, bæði í þessari ræðu sem og í fyrri ræðu minni, rakið viðbrögð við frumvarpinu sem og helstu breytingartillögum frá meiri hluta hv. velferðarnefndar. Ég tel sem sagt að þar sé verið að setja peningana í ógagnsæja flokka þar sem auðvelt er að slá ryki í augun á fólki með því að tala einungis um hækkanir en láta skerðingarnar sem á móti koma liggja meira á milli hluta, því að í tillögum meiri hlutans eru peningarnir einmitt settir í þá bótaflokka sem sæta mestu skerðingunum, þ.e. heimilisuppbótina hjá ellilífeyrisþegum, þar sem skerðingarhlutfallið verður hækkað, og framfærsluuppbótina hjá örorkulífeyrisþegum, sem skerðist krónu á móti krónu. Því erum við í minni hluta velferðarnefndar algerlega ósammála, en vegna þess knappa tíma sem við höfum til þess að móta tillögur sem viðbragð við breytingartillögum meiri hlutans leggjum við til að allir bótaflokkar hækki um 13,4%, þannig verði greiðslur almannatrygginga í takt við umsamdar launahækkanir á vinnumarkaði.

Ég gleðst yfir því að við höfum náð saman um að nauðsynlegt sé að fara í hækkanir til þess að toga kjör lífeyrisþega upp. En því miður eru tillögur meiri hlutans um hvernig eigi að gera það ekki góðar. Þess vegna leggur minni hlutinn til sínar eigin breytingartillögur. Ég vona svo sannarlega að eftir þessa umræðu sjái hv. þingmenn ljósið og frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingartillögum sem minni hlutinn gerir.