145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[17:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er um mikla kjarabót að ræða fyrir alla þá sem fá bætur frá almannatryggingum. Það er tímamótaskref sem við stígum með kerfisbreytingunni, einföldun kerfisins. Við erum með gegnsærra, sanngjarnara og betra almannatryggingakerfi eftir samþykkt þessara laga. Það er síðan sérstakt fagnaðarefni að við skulum hafa skapað aðstæður til þess að koma lágmarksbótum upp í 300 þús. kr. í þeim skrefum sem kynnt hafa verið.

Varðandi hækkun lífeyristökualdurs er það hárrétt sem sagt hefur verið að þetta hangir að sjálfsögðu saman við jöfnun lífeyrisréttar á milli almenna og opinbera markaðarins. Það er enginn ágreiningur við ríkisstjórnina um að það átti ávallt að hanga saman. Ég held að það sé augljóst að við þurfum að ræða það á milli umræðna hvernig eigi að bregðast við þeirri ályktun og þeim ábendingum sem komið hafa frá Alþýðusambandi Íslands, en þar er fyrst og fremst um það að ræða að Alþýðusambandið treystir því ekki að þingið muni rísa undir því hlutverki að jafna lífeyrisréttindin eins og um hafði verið samið við opinbera markaðinn. Í ljósi þess vantrausts styður sambandið ekki tillöguna um (Forseti hringir.) hækkun lífeyristökualdursins eins og hér hefur verið boðað. En við skulum um leið halda því til haga (Forseti hringir.) að það er fullur stuðningur við þá kerfisbreytingu (Forseti hringir.) engu að síður, þetta er bara spurning um það hvenær hún á að koma til framkvæmda.