145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[17:56]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að þetta mál sé komið til atkvæðagreiðslu við 2. umr. og vonandi klárum við það seinna í kvöld. Ég vil fá að þakka nokkrum við þetta tilefni, sérstaklega Pétri heitnum Blöndal, fyrrum hv. þingmanni, sem við söknum öll hér úr þingsal, og síðan Þorsteini Sæmundssyni, sem lauk vinnunni eftir að Pétur féll frá. Ég vil líka nota tækifærið og þakka velferðarnefnd fyrir alla sína vinnu og taka undir það sem kemur hér fram um mikilvægi þess að málið fari til nefndar aftur milli 2. og 3. umr. og að farið verði yfir lífeyristökualdurinn í samræmi við þær athugasemdir sem komið hafa frá Alþýðusambandinu. Það hefði verið mjög gott ef við hefðum líka staðið hér við samkomulag sem gert var við opinberu félögin á vinnumarkaðnum um jöfnun lífeyrisréttinda. Vonandi mun það ganga eftir. Ég veit að þeir sem standa að þessari ríkisstjórn munu gera sitt til þess að svo verði. En hér erum við hins vegar að samþykkja mestu breytingar á almannatryggingum sem gerðar hafa verið. Þær breytingar sem nefndin leggur til (Forseti hringir.) eru svo sannarlega til bóta.