145. löggjafarþing — 170. fundur,  12. okt. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[19:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um námslán og námsstyrki. Nefndarálitið liggur fyrir á þingskjali 1723 og breytingartillaga liggur fyrir á þingskjali 1724. Málið er hér til 2. umr.

Ég vil byrja á því að fagna því sérstaklega að málið skuli komið á dagskrá því að ég tel það afar mikilvægt eftir alla þá vinnu sem lögð hefur verið í málið í þinginu og hjá allsherjar- og menntamálanefnd að tækifæri gefist til að ræða það í þingsal.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund mikinn fjölda gesta. Alls bárust 45 umsagnir og erindi varðandi málið. Það var til umræðu á 13 fundum allsherjar- og menntamálanefndar. Á flestum þeim fundum fór megnið af tíma nefndarinnar í þetta eina mál. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim gestum sem að málinu hafa komið, sem og nefndarmönnum fyrir vinnuna. Þá tel ég rétt að geta þess hér að frumvarp til laga um námslán og námsstyrki var lagt fram 30. maí en mælt var fyrir því hér í þingsal 16. ágúst þannig að umræðan um frumvarpið eins og það var lagt fyrir þingið hefur nú staðið í hátt í hálft ár í þjóðfélaginu.

Nefndarálitið er allítarlegt og mun ég í umfjöllun minni leggja áherslu á að draga sýn meiri hlutans á heildarbreytinguna sem í frumvarpinu felst og forsendur breytingartillagna meiri hlutans.

Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Markmiðum frumvarpsins má skipta í nokkra þætti. Í fyrsta lagi er brugðist við þeim breytingum sem orðið hafa á íslensku menntakerfi síðan lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna voru síðast tekin til heildarendurskoðunar, en það var 1992. Í öðru lagi er brugðist við athugasemdum sem fram hafa komið í skýrslum Ríkisendurskoðunar á undanförnum árum. Í þriðja lagi er komið til móts við gagnrýni samtaka námsmanna, hagsmunaaðila og Ríkisendurskoðunar hvað varðar það misræmi sem útdeiling ríkisstyrks til námsmanna í formi vaxtaniðurgreiðslu og afskrifta felur í sér og til að bregðast við því er námsstyrkurinn gerður sýnilegri og jafnari. Í fjórða lagi er brugðist við þeim áhættugreiningum sem gerðar hafa verið á Lánasjóði íslenskra námsmanna og þeirri þróun sem þar kemur fram. Í fimmta lagi er verið að hvetja til bættrar námsframvindu nemenda og auka um leið gagnsæi í nýtingu ríkisfjár og í sjötta lagi er fyrirkomulag námsaðstoðar fært nær því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum.

Nefndarálitið skiptist í nokkra kafla. Fyrst er kafli um háskóla og vísindi á Íslandi, þróun og stöðu.

Í október 2015 gaf mennta- og menningarmálaráðuneytið út skýrslu um háskóla- og vísindakerfið á Íslandi, en mennta- og menningarmálaráðherra ákvað haustið 2014 að hafin yrði vinna við gerð heildstæðrar stefnu til fimm ára fyrir málefnasviðið „háskólar og vísindastarfsemi“ sem tæki til æðri menntunar, rannsókna, nýsköpunar og helstu stoðaðila málaflokksins. Stefnan á að ná til háskóla, rannsóknarstofnana og þekkingarsetra, Rannsóknamiðstöðvar Íslands, Lánasjóðs íslenskra námsmanna og Vísinda- og tækniráðs. Skýrslan er afrakstur fyrsta áfanga stefnumótunarinnar og lýsir stöðu háskóla- og vísindakerfisins hér á landi með tilvísun í nýjar tölulegar upplýsingar um málaflokkinn. Þessi skýrsla er því ein af þeim grunnstoðum sem frumvarpið byggir á.

Háskólanemum hér á landi hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum og var fjölgunin sérstaklega mikil upp úr aldamótum. Árið 2000 voru háskólanemar rúmlega 10 þúsund talsins en á allra síðustu árum hafa þeir verið um 20 þúsund. Hlutfall kvenna hefur verið á bilinu 62–64% frá aldamótum. Í skýrslunni kemur fram að meðalaldur nýnema var árið 2012 hæstur á Íslandi í samanburði við OECD-ríkin eða 25,6 ár. Háskólanemar hér á landi eru eldri en gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Hvergi er jafn lágt hlutfall í yngsta aldurshópnum, þ.e. 24 ára og yngri, og að sama skapi er hvergi jafn hátt hlutfall nema í elstu aldurshópunum, þ.e. 30 ára og eldri. Hlutfall tvítugra í háskóla hér á landi var með því lægsta í löndum OECD en hvergi var jafnhátt hlutfall tvítugra í framhaldsskóla. Gera má ráð fyrir að hlutfall tvítugra í framhaldsskólum lækki á næstu árum í kjölfar styttingar náms til stúdentsprófs. Meðalaldur stúdenta sem ljúka fyrstu háskólagráðu hér á landi var tæpt 31 ár árið 2012 og var það hæsta meðaltal í OECD-ríkjunum. Að jafnaði eru nemendur í OECD-ríkjunum 31 og hálfs árs þegar þeir ljúka meistaragráðu en hér á landi er meðalaldurinn rúmlega 35 ár.

Á grunni þess sem hér var rakið er með frumvarpinu lögð áhersla á að hvetja til bættrar námsframvindu nemenda, m.a. með námsstyrkjum sem háðir eru kröfum um námsframvindu. Það er mikilvægt fyrir nemendur, háskólana og þjóðfélagið að nemendur stundi samfellt nám eftir því sem kostur er.

Þá eru það nokkur atriði varðandi fyrirkomulag námsaðstoðar. Í 9. gr. frumvarpsins er fjallað um hámark námsaðstoðar, áhrif aldurs og takmörkun vegna launaðs starfs. Við meðferð málsins komu fram nokkrar athugasemdir varðandi það að námsaðstoð verði einungis veitt til sjö ára náms eða sem samsvarar 420 ECTS-einingum. Meiri hlutinn áréttar að það fimm ára styrkjafyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu sé í samræmi við kröfur sem settar eru fram í Bologna-yfirlýsingunni sem undirrituð var árið 1999 og íslensk menntastefna hefur tekið mið af síðan. Þá ber að hafa í huga að með því að undanskilja ákveðnar námsgreinar frá fimm ára styrkveitingartímabili skapast ójafnræði á milli námsmanna eftir því hvaða nám þeir kjósa að leggja stund á, sem er í andstöðu við þá meginhugmynd að styrkveitingar í gegnum námsaðstoðarkerfi skuli vera jafnar. Nokkur umræða skapaðist í nefndinni um að hámark námsaðstoðar mundi draga verulega úr möguleikum nemenda til að ljúka doktorsprófi. Fram kom á fundi nefndarinnar að tiltölulega lítill hluti doktorsnema þiggur námsaðstoð. Einnig var bent á að möguleikar doktorsnema til þess að afla sér styrkja hafa verið auknir á undanförnum árum með auknum fjárframlögum hins opinbera. Meiri hlutinn bendir á að samkvæmt Bologna-yfirlýsingunni, sem Ísland er aðili að, er fullt háskólanám á öllum námsstigum 480 ECTS-einingar, þ.e. 180 einingar fyrir bakkalárgráðu, 120 einingar fyrir meistaragráðu og 180 einingar fyrir doktorsgráðu, eða átta ár. Með hliðsjón af framangreindu telur meiri hlutinn rétt að bregðast við þeim athugasemdum sem fram komu við meðferð frumvarpsins og leggur til þá breytingu að hafi námsmaður fullnýtt rétt sinn til námsaðstoðar geti hann sótt um undanþágu til LÍN fyrir allt að 60 ECTS-einingum til viðbótar vegna doktorsnáms. Þannig verði námsaðstoðin bundin við sama fjölda eininga og mest gerist á hinum Norðurlöndunum.

Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um námsstyrk. Þar segir að námsstyrkur til framfærslu á skólaári sé 65 þús. kr. á mánuði miðað við fulla námsframvindu. Nokkrar athugasemdir komu frá umsagnaraðilum um að æskilegra væri að námsstyrkurinn væri bundinn við félagslega stöðu lántaka og að jafn styrkur óháð búsetu eða félagslegum eða efnahagslegum aðstæðum muni auka ójöfnuð meðal námsmanna. Nefndin ræddi þetta nokkuð. Mat meiri hlutans er að markmiði frumvarpsins, að tryggja námsmönnum framfærslu meðan á námi stendur óháð efnahag, sé náð, annars vegar með greiðslu styrkja og hins vegar með lánum þar sem mögulegt verður að fá lán allt að fullri framfærslu. Þannig verði tryggt að námsmenn geti stundað nám óháð efnahag. Þá er jafnframt tryggt að tekið sé mið af fjölskylduaðstæðum námsmanna við útreikning á framfærsluviðmiði. Meiri hlutinn bendir á að námsmenn eiga eftir atvikum rétt á bótagreiðslum, svo sem barnabótum og húsnæðisstuðningi, miðað við félagslegar aðstæður.

Í 12. gr. frumvarpsins er fjallað um almenn skilyrði og hámark námslána. Fram kemur í 2. mgr. að samanlögð heildarfjárhæð námslána sem sjóðurinn lánar hverjum einstaklingi til framfærslu og skólagjalda megi að hámarki vera 15 millj. kr. Þessi hámarksupphæð var nokkuð rædd og meiri hlutinn áréttar að 15 millj. kr. þak á námslán sem jafngildir tæplega 18 millj. kr. þegar tekið hefur verið tillit til styrkgreiðslnanna til námsmanns sé hæfilegt viðmið. Bendir meiri hlutinn á að nú taka rúmlega 99% námsmanna námslán sem eru undir þessum viðmiðunarmörkum og er því ljóst að mati meiri hlutans að þetta þak á hámarki lánsfjárhæðar muni hafa takmörkuð áhrif á námsmenn. Þá er rétt í þessu sambandi að árétta að 85% námslána einstaklinga eru nú undir 7,5 millj. kr.

Nokkuð var rætt um upplýsingagjöf LÍN til lántaka um stöðu námslána. Mikilvægt er að mati meiri hlutans að upplýsingagjöf til námsmanna verði bætt frá því sem nú er og þannig stuðlað að auknu gagnsæi og stutt við fjármálalæsi. Í því skyni er mikilvægt að lántaki geti gert sér grein fyrir rétti til lántöku, væntanlegri greiðslubyrði þeirra lána sem hann hyggst taka og/eða hefur tekið. Nauðsynlegt er að ákvarðanir námsmanns um hvort og hve hátt lán hann tekur byggist á traustum upplýsingum í samræmi við fyrirkomulag fyrirhugaðs náms og fjölskylduaðstæður. Meiri hlutinn leggur til að við 12. gr. frumvarpsins bætist við tvær nýjar málsgreinar sem kveði á um upplýsingaskyldu, þar á meðal að LÍN skuli gera einstaklingum kleift að áætla greiðslubyrði mögulegra lána með einföldum hætti. Þá skyldu mætti uppfylla með því að gera reiknilíkan aðgengilegt á vef.

Þá er það fyrirkomulag útborgunar námsaðstoðar.

Samkvæmt frumvarpinu fá nemendur almennt greidda út námsstyrki og framfærslu- og skólagjaldalán við lok missira þegar fyrir liggur að þeir hafi staðist kröfur um námsframvindu. Námsmaður getur samkvæmt frumvarpinu fengið greiddan vaxtastyrk sem ætlaður er til að bæta honum fjármagnskostnað vegna námsaðstoðar til framfærslu í samræmi við veitta námsaðstoð. Ábendingar bárust um að hagræði væri af því að breyta því fyrirkomulagi í þá átt að námsstyrkir og námslán yrðu greidd nemendum samhliða námi þeirra. Bent var á að þar sem námsaðstoð er greidd út eftir á er óhjákvæmilegt að hluti af fjárveitingum til LÍN renni beint til lánastofnana í gegnum vaxtastyrki en ekki til námsmanna. Til að bæta úr því leggur meiri hlutinn til að námsmönnum verði gert kleift að þiggja námsaðstoð með mánaðarlegum fyrirframgreiðslum á meðan nám stendur, hafi þeir lokið a.m.k. einu missiri af námi sínu. Meiri hlutinn bendir á að þessi breytingartillaga kalli á tilfærslu fjárveitinga til lánasjóðsins milli ára sem hefur einskiptiskostnað í för með sér. Verði frumvarpið lögfest þarf að taka tillit til þess við gerð fjáraukalaga. Þessi breyting sem meiri hlutinn leggur til hefur mikla þýðingu fyrir námsmenn og hefur verið baráttumál námsmanna alveg síðan síðasta heildarendurskoðun á lögum um námslán fór fram 1992. Verði þessi breyting að lögum eru það tímamót bæði fyrir námsmenn sjálfa og eins fyrir ríkissjóð þar sem fjármunir sem eytt er til námsaðstoðar nýtast betur og nýtast námsmönnum en ekki fjármálastofnunum.

Lánakjör og endurgreiðslur námslána.

Í 16. gr. frumvarpsins er fjallað um lánakjör. Nokkuð var rætt um þá grein og leggur meiri hlutinn til þá breytingu að vaxtaálag vegna væntra affalla verði fest í 0,5%. Þá leggur meiri hlutinn til að kveðið verði á um að vextir skuli að hámarki vera 2,5% og að þeir skuli ákvarðaðir í úthlutunarreglum hvers árs með hliðsjón af meðaltalslánakjörum sjóðsins. Með þeim hætti gefst tækifæri til að lækka vaxtaprósentuna ef lánasjóðurinn og ríkissjóður njóta betri lánakjara en staðreyndin er í dag.

Í 17. gr. er fjallað um endurgreiðslur. Með hliðsjón af upplýsingaskyldu lánveitanda leggur meiri hlutinn til að við upphaf endurgreiðslu námslána skuli LÍN gefa út greiðsluáætlun til lánþega sem tekur mið af árlegri meðalverðbólgu síðustu 12 mánaða.

Í 18. gr. frumvarpsins er fjallað um frestun endurgreiðslu. Þar kemur fram að LÍN er heimilt að veita frest á endurgreiðslum námslána í allt að 12 mánuði í senn vegna verulegra fjárhagserfiðleika af völdum náms, atvinnuleysis, veikinda, slyss, þungunar, umönnunar barna eða maka eða annarra sambærilegra aðstæðna sem koma skyndilega upp. Lántaki getur að hámarki fengið frestun á endurgreiðslum í 36 mánuði samanlagt. Meiri hlutinn bendir á að frumvarpið felur í sér veigamikla breytingu með takmörkunum á því hversu lengi er hægt að fá slíka frestun. Jafnframt er í 18. gr. frumvarpsins veitt heimild til að fresta allt að helmingi hverrar endurgreiðslu námslána sem veitt eru í allt að 60 mánuði vegna fyrstu kaupa lántaka á íbúðarhúsnæði. Það er mat meiri hlutans að takmörkun á reglum sem þessum geti bitnað á þeim sem eiga í verulegum fjárhagsörðugleikum vegna skyndilegra eða óvæntra atvika en takmörkunin eins og hún er sett fram geti orðið til hindrunar. Mikilvægt er að líta til aðstæðna einstaklinga hverju sinni í þessu tilfelli og því leggur meiri hlutinn til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði sem kveði á um heimild til að fella niður afborganir af námsláni meðan lántaki á í fjárhagserfiðleikum sökum þess að hann er óvinnufær vegna slyss, sjúkdóms eða annarra sambærilegra orsaka, enda hafi lánið verið veitt áður en lántaki varð óvinnufær. Aðeins verði heimilt að fella niður afborganir sem eru á gjalddaga meðan lántaki á í fjárhagsörðugleikum af framangreindum orsökum.

Í 25. gr. frumvarpsins er fjallað um upplýsingagjöf til LÍN. Í umsögn Persónuverndar kom fram að það væri mat Persónuverndar að ákvæðið fæli í sér of víðtæka heimild til vinnslu persónuupplýsinga um lántaka, maka hans og fjölskyldu. Nauðsynlegt sé að afmarka með skýrum hætti hvaða upplýsingar séu nauðsynlegar fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna þegar lagt er mat á hvort lántaki eigi rétt á námsaðstoð eða ef hann óskar eftir undanþágu af einhverjum ástæðum. Einnig þarf að afmarka nánar hvenær, í hvaða tilvikum og frá hverjum LÍN er nauðsynlegt að afla upplýsinga um lántaka, og eftir atvikum maka hans, sem og veita fræðslu um þá vinnslu. Í ljósi þessa leggur meiri hlutinn til breytingar á ákvæðinu þannig að 25. gr. frumvarpsins verði skipt í tvær greinar þannig að skýrt sé skilið á milli upplýsingaskyldu umsækjanda annars vegar og upplýsingaskyldu stjórnvalda hins vegar.

Í 26. gr. frumvarpsins er kveðið á um þagnarskyldu. Meiri hlutinn leggur til ákvæði í samræmi við athugasemdir frá Persónuvernd.

Í 27. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ákvæði laga um staðgreiðslu opinberra gjalda eigi ekki við um greiðslur námsaðstoðar. Ríkisskattstjóri benti á að þegar gera eigi undanþágu frá skilum á staðgreiðslu beri að gæta vel að afmörkun undanþágunnar. Í því skyni væri hugtakið „námsaðstoð“ rýmra en tilefni væri til. Meiri hlutinn fellst á þessa ábendingu og leggur til að í stað orðsins „námsaðstoð“ komi „námsstyrkur“. Meiri hlutinn leggur að auki til þá viðbót við ákvæðið að LÍN skuli reglulega veita ríkisskattstjóra upplýsingar um fjárhæðir veittra námsstyrkja, enda styrkirnir eftir sem áður tekjuskattsskyldir. Mun sú framkvæmd auðvelda þeim námsmönnum sem afla tekna umfram skattleysismörk að upplýsa launagreiðendur um stöðu persónuafsláttar í gegnum rafrænt skattkort. Meiri hlutinn beinir því jafnframt til ráðuneytisins að kannað verði hvort lagabreyting þessi kalli á endurskoðun reglugerðar nr. 561/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu. Til að skýra þetta aðeins nánar þá snýst þetta í raun um það að lánasjóðurinn skilar ekki staðgreiðslu af greiddum námsstyrkjum en kemur upplýsingunum til skila þannig að þær fari inn á rafrænt skattkort einstaklinga sem þiggja námsstyrk. Ætti það að mestu að koma í veg fyrir að nemendur sem njóta styrkja skuldi skatt í árslok.

Þá leggur meiri hlutinn til breytingu á gildistöku frumvarpsins því að þegar frumvarpið var lagt fram var gert ráð fyrir að það tæki gildi 1. ágúst. Meiri hlutinn telur ljóst að frumvarpið feli í sér kerfisbreytingar sem þarfnist undirbúnings og leggur því til að frumvarpið taki gildi 1. ágúst 2017.

Þá eru nokkrar breytingar á bráðabirgðaákvæðum; þar sem meiri hlutinn leggur til breytingu á gildistöku frumvarpsins eru gerðar breytingar á ákvæðum til bráðabirgða til samræmis við það.

Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var nokkuð rætt um möguleika á að nota endurgreiðslukjör námslána sem hvata fyrir fólk til þess að setjast að og starfa á dreifbýlum svæðum sem eiga í vök að verjast. Meiri hlutinn bendir á að í gildandi byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017 er tillaga um sértækar aðgerðir á svæðum þar sem fólksfækkun er talin líkleg. Þar segir að kanna eigi möguleika á því að námslán íbúa tiltekins svæðis verði afskrifuð um ákveðið hlutfall á hverju ári. Rökin fyrir þessari tillögu eru að þetta var talin heppileg aðgerð til að auka fjölbreytni atvinnulífs á svæðum sem eiga undir högg að sækja og til að auka líkur á að fá sérfræðimenntað fólk til starfa. Þá var einnig litið til þess að þessar aðgerðir gætu verið hvati fyrir fólk sem vill búa á landsbyggðinni að námi loknu að hasla sér þar völl. Meiri hlutinn bendir á að hliðstætt fyrirkomulag gildir í Noregi þar sem hægt er að sækja um niðurfellingu á allt að 10% námslána á ári ef viðkomandi býr og starfar í nyrstu héruðum landsins. Þá stuðla Norðmenn einnig að búsetu tiltekinna starfsstétta, t.d. lækna og kennara, í dreifbýlustu héruðum landsins með sérstökum reglum um endurgreiðslu námslána.

Meiri hlutinn leggur til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um að ráðherra skuli skipa fimm manna starfshóp sem hafi það hlutverk að útfæra tillögu um leiðir til að koma á hvatakerfi í gegnum skattkerfið við endurgreiðslu námslána, til stuðnings byggðastefnu. Meiri hlutinn leggur annars vegar til að hópurinn útfæri hvatakerfi fyrir háskólamenntað fólk til að setjast að á þeim svæðum sem eiga helst undir högg að sækja og hins vegar skoði hvort nýta megi sambærilegt kerfi til að hvetja námsmenn til að afla sér menntunar sem fyrirsjáanlegur skortur er á í samfélaginu.

Mat meiri hlutans er að þegar ný lög um námslán og námsstyrki koma til framkvæmda gætu komið upp vafaatriði varðandi rétt nemenda sem njóta námsstyrkja frá LÍN og gætu jafnframt átt rétt á jöfnunarstyrk samkvæmt lögum um námsstyrki. Meiri hlutinn leggur til nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að ráðherra skuli skipa fimm manna starfshóp sem hafi það hlutverk að skoða samspil laga um námsstyrki, nr. 79/2003, og laga um námslán og námsstyrki. Hópurinn skal hafa það að markmiði að allir framhaldsskólanemendur og nemendur í grunnnámi á háskólastigi sem ekki geta stundað sambærilegt nám frá lögheimili hér á landi eða öðrum jafngildum dvalarstað, njóti ferðastyrkja óháð því hvort þeir nýta sér dvalarstyrki samkvæmt lögum um námsstyrki eða námsaðstoð LÍN.

Meiri hlutinn leggur til að tillögum verði skilað til ráðherra eigi síðar en 1. mars 2017 eða með góðum fyrirvara fyrir gildistöku laganna.

Þá hefur verið farið yfir helstu breytingartillögur meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Mig langar í lokin að draga saman helstu atriði sem mér finnast mikilvæg varðandi frumvarpið.

Mat meiri hlutans er að sú kerfisbreyting sem frumvarpið felur í sér muni hvetja til bættrar námsframvindu, auka gagnsæi og samræmi við hin Norðurlöndin. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að þessar kerfisbreytingar fela í sér aukið gagnsæi þar sem námsaðstoð skiptist í námslán og námsstyrk og auðveldara verði að bregðast við þörfum mismunandi hópa í samfélaginu, þ.e. breytingin skapar ný tækifæri til að bregðast við þörfum þessara hópa. Í ljósi þessa er til dæmis lagt til að sérstök skoðun fari fram um hvernig mæta mætti byggðasjónarmiðum.

Meiri hlutinn telur að það nýmæli að nemendum sem stunda starfsnám á framhaldsskólastigi bjóðist námsstyrkur geti orðið mikill lyftistöng fyrir iðn- og starfsnám á Íslandi. Framfærslulán verða hækkuð í 100%, sem er mikið framfaraskref, en þessar breytingar auka líkur á að nemendur þurfi ekki að vinna með námi og þar með er meiri möguleiki á að auka skilvirkni í náminu. Meiri hlutinn áréttar að námsmenn geta átt rétt á greiðslum úr ýmsum bótakerfum meðan á námi stendur og geta þær einnig haft áhrif á lántökuþörf námsmanna þegar kemur að námsaðstoð ríkisins. Meiri hlutinn bendir sérstaklega á nýsamþykkt lög um húsnæðisbætur, nr. 75/2016, en sú löggjöf felur í sér að grunnfjárhæðir bóta hækka og bótafjárhæðir og frítekjumörk ráðast af fjölda heimilismanna óháð aldri. Meiri hlutinn leggur áherslu á rétt lántaka til að fá haldgóðar upplýsingar um rétt til lántöku og væntanlega greiðslubyrði og að námsmenn geti þannig tekið upplýstar, meðvitaðar ákvarðanir í fjármálum til lengri og skemmri tíma. Mikilvægt er að möguleiki gefist á láni fyrir fullri framfærslu en að sama skapi er mikilvægt að námsmenn geti valið að taka bara hlutalán í samræmi við þarfir og áætlaða endurgreiðslugetu að námi loknu.

Virðulegi forseti. Þá telur meiri hlutinn að með þeirri breytingu sem hann leggur til, að námsmönnum verði gert kleift að þiggja námsaðstoð samhliða námi en ekki einungis eftir á, sé brugðist við einu helsta baráttumáli hagsmunasamtaka námsmanna á síðustu árum og einum helsta galla á kerfinu síðustu árin, námsmönnum til mikilla hagsbóta.

Þá vill meiri hlutinn árétta að frumvarpið felur ekki í sér íþyngjandi breytingar á námslánakerfi íslenskra námsmanna enda mun greiðslubyrði mikils meiri hluta námsmanna lækka og heildarskuldsetning einstakra námsmanna lækka sömuleiðis.

Þá bendir meiri hlutinn á að ríkissjóður mun leggja til allt að 2,3 milljarða króna árlega til viðbótar við núverandi fjárframlag til lánasjóðsins í því skyni að bæta kjör námsmanna. Þetta er eins og frumvarpið var lagt fram. Því til viðbótar felur breytingartillaga meiri hlutans um að námslán skuli greidd út samhliða námi í sér tilfærslu á kostnaði á milli ára upp að 4,5 milljörðum. Því er fráleitt að halda fram að námsmönnum sé ætlað að borga aukinn kostnað sem hlýst af kerfisbreytingunni.

Auk þeirra breytinga sem gerð er grein fyrir að framan leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar lagatæknilegs eðlis sem ekki þarfnast útskýringa. Að öllu framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali og gerð hefur verið grein fyrir hér.

Undir álitið rita hv. þingmenn Haraldur Einarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Unnur Brá Konráðsdóttir formaður, og Líneik Anna Sævarsdóttir, framsögumaður málsins.