145. löggjafarþing — 170. fundur,  12. okt. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[20:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir yfirferð um álit minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Það vekur þó nokkra furðu að ekki skuli koma fram í álitinu hugmyndir um með hvaða hætti mætti bæta frumvarpið öðruvísi en bara að efna til frekara samráðs.

Mig langar að byrja á að spyrja þingmanninn út í það sem rakið er á bls. 47–49 í greinargerð með frumvarpinu, eða athugasemdum, um kostnaðaráhrifin. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Mesta óvissan við mat á auknum útgjöldum úr ríkissjóði snýr að styrkveitingum til þeirra sem eiga rétt á námsaðstoð. […] Gera verður ráð fyrir að fjölgun námsmanna sem mundu nýta sér styrki í nýju kerfi verði nokkuð meiri og er í frumvarpinu miðað við að 50–60% námsmanna sem ekki njóta fyrirgreiðslu sjóðsins í dag mundu nýta sér námsstyrk. Er þá tekið mið af því að talsverður hluti þessa hóps er í hlutanámi eða uppfyllir ekki kröfur um lágmarksnámsframvindu. Þannig er gert ráð fyrir að allt að tvöfalt fleiri námsmenn njóti fyrirgreiðslu sjóðsins en í núverandi fyrirkomulagi.“

Síðan kemur fram á bls. 48 að miðað sé við að útgjöld ríkissjóðs geti aukist um 1,3–2 milljarða og allt að 2,3 milljörðum verði það 60% námsmanna sem ekki eru á lánum í dag sem muni nýta sér styrkinn. Vil ég einfaldlega spyrja þingmanninn, því að mér heyrðist á máli hans að hann áliti að ekki væri verið að bæta fjármagni inn í stuðninginn, hvort hann sé ekki sammála að gert sé ráð fyrir því í frumvarpinu að það gætu orðið 2,3 milljarðar.