145. löggjafarþing — 170. fundur,  12. okt. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[20:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Álit mitt er að það muni klárlega koma til viðbótarfjármagn inn í kerfið til þess að mæta styrkjunum. Gerð er mjög vel grein fyrir því á bls. 47–49.

Þá langar mig að beina einni spurningu til þingmannsins. Hvernig telur framsögumaður minni hluta mögulegt að greina á milli þeirra sem sanngjarnt er að njóti styrksins og þeirra sem ekki ættu að njóta hans? Eru það einhver tekjuviðmið? Er það hvar menn búa? Eitthvað slíkt?

Síðan langar mig að spyrja þingmanninn út í þær staðreyndir sem eru raktar í athugasemd með frumvarpinu um upphæðir námslána þeirra sem nú hafa tekið námslán. Það eru í raun þær upplýsingar sem koma fram á þessum blaðsíðum og í töflu 4 sem segja okkur mest um að það er ekki nema lítill hluti námsmanna á hverjum tíma sem fullnýtir það þak sem nú er verið að setja á námslánin. Dæmin sem reiknað var með í þeim dæmum sem við skoðuðum á fundum nefndarinnar og rakin eru í greinargerð með frumvarpinu eru dæmi sem byggja á upplýsingum úr lánasafni sjóðsins eins og það er núna og byggja þess vegna á raunveruleikanum. Telur framsögumaður minni hluta það ekki vera rétt?