145. löggjafarþing — 170. fundur,  12. okt. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[20:19]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei. Ég tel þessa útreikninga villandi. Við verðum einfaldlega að skoða dæmin. Það var mjög lærdómsríkt í nefndinni að skoða dæmi um manneskju sem er með tvö börn, hvað hún tekur núna, hvað hún borgar í afborganir miðað við tilteknar forsendur um tekjur því að núna eru tekjutengdar afborganir. Og miðað við það að útskrifast 27 ára og taka full námslán eins og fólk gerir núna í viðkvæmum hópum, og síðan hvernig slíkri manneskju mundi reiða af í nýja kerfinu. Niðurstaðan er óvefengjanleg. Slíkri manneskju, í erfiðri, þröngri stöðu félagslega, með lítið á milli handanna, reiðir verr af. Þannig er það bara. Menn geta reynt að glíma við þetta með einhverjum meðaltalsreikningi eða einhverju svoleiðis, en þetta er staðreyndin. Það er vont að fólk sem er í þröngri stöðu hafi það verra, fólk sem hefur lægri laun en meðaltalið hafi það verra. Það er vont. Það er galli á þessu frumvarpi.

Hvernig mundi ég vilja útdeila styrknum, var spurt líka. Hvernig á að meta það hver á að fá styrk og hver ekki? Þetta eru þær spurningar sem við glímum alltaf við þegar við veitum fé úr hinu opinbera til styrkja eða bóta. Ein leiðin sem farin er og sú leið sem ég aðhyllist að ef við ætlum að útdeila styrkjum eða bótum eigum við að horfa á það að reyna að jafna félagslega stöðu fólks. Mér finnst að námslánin eigi að bjóðast öllum eins og þau munu auðvitað alltaf gera. Þar með sé alveg tryggt að allir geti framfleytt sér í námi. Námslánin eigi að vera hagstæð, ódýr og niðurgreidd af hinu opinbera. Vegna þess að menntun er fjárfesting. En styrkina, vegna þess að fjármunir eru af skornum skammti, finnst mér að eigi síðan að nota til að jafna félagslega stöðu, (Forseti hringir.) jafna stöðu þeirra sem koma utan af landi til móts við þá sem eru í höfuðborginni og þar fram eftir götunum. Og til hvatningar varðandi námsframvindu.