145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna.

449. mál
[10:14]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð langt síðan þetta mál var lagt fram í þinginu og var vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Það hefur tekið svolitlum breytingum í meðförum nefndarinnar, tillögugreinin sjálf hefur verið umorðuð í þeirri von að samkomulag og eining náist um málið í þinginu. Nú hljóðar tillögugreinin svo að Alþingi álykti að fela innanríkisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra að láta gera fýsileikakönnun á stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna eða sambærilegu embætti sem hafi önnur málefni flóttamanna með höndum en úrskurðar- og rannsóknarvald. Eins og kemur fram í nefndaráliti með breytingartillögu um þessa þingsályktunartillögu hafa gestir nefndarinnar sem voru kallaðir til umsagnar um málið lýst almennt ánægju með þessa þingsályktunartillögu og markmið hennar.

Nú er liðið að lokum yfirstandandi löggjafarþings og þess vegna er nauðsynlegt að breyta viðmiðunartíma niðurstaðna könnunarinnar. Samkvæmt tillögugreininni var gert ráð fyrir að niðurstaða nefndar undirbúningsvinnu lægi fyrir fyrir lok þessa kjörtímabils sem er núna að ljúka. Þess vegna leggjum við til að Alþingi verði gerð grein fyrir niðurstöðum fýsileikakönnunarinnar með skýrslu fyrir 1. september að ári, 2017. Síðan leggjum við til breytingu á fyrirsögn til samræmis við þetta.

Undir nefndarálitið rita Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður nefndarinnar, sú sem hér stendur, Ólína Þorvarðardóttir, framsögumaður, Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Halldóra Mogensen, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir.