145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

900. mál
[10:51]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar á þskj. 1808 um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis- og fullveldis Íslands, en 1. desember 1918 verða 100 ár liðin frá gildistöku sambandslaganna. Formenn allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi eru flutningsmenn tillögunnar. Atburðirnir sem urðu í júlí 1918, er samningar um fullveldi Íslands stóðu yfir og var lokið 18. júlí með gildistöku 1. desember það ár, verða að telja þeir allra merkustu í sögu þjóðarinnar frá upphafi og því tvímælalaust mikið tilefni til að minnast þeirra með hátíðahöldum á árinu 2018.

Þótt raunverulegum afskiptum Dana af málefnum Íslands hafi í raun lokið með heimastjórn, íslenskum ráðherra, íslensku framkvæmdarvaldi og þingræði í nútímaskilningi, var það ekki fyrr en 1918 sem Ísland öðlaðist sess meðal þjóðanna sem frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. Lagt er til að kosin verði nefnd með fulltrúum allra þingflokka er undirbúi hátíðahöld árið 2018 í samræmi við ályktun þessa. Þar mun bera hæst hátíðarfund á Þingvöllum 18. júlí 2018, en þá verður liðin ein öld frá því að samningnum um fullveldi Íslands lauk. Venja hefur skapast um að minnast merkustu atburða Íslandssögunar með slíkum hætti. Efnt verði til hátíðahalda sömuleiðis 1. desember 2018 m.a. við Stjórnarráðið í Reykjavík þegar öld verður liðin frá því að sambandslögin öðluðust gildi. Samráð verði haft við félög stúdenta um viðburði þennan dag enda hafa þau haldið minningu um mikilvægi þessa dags dyggilega á lofti.

Af öðrum tillögum sem felast í ályktuninni má nefna að efnt verði til samkeppni um hönnun og útlit stjórnarráðsbyggingar og skipulags á Stjórnarráðsreit, tekið verði saman rit um aðdraganda sambandslaganna, efni laganna og framkvæmd þeirra, svo og rit um inntak fullveldisréttar er Ísland öðlaðist að þjóðarétti 1918. Þá verði stofnað til sýningar í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins til að minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar. Jafnframt verði stuðlað að heildarútgáfu Íslendingasagna á afmælisárinu svo fornar bókmenntir Íslendingar séu jafnan öllum tiltækar jafnt á bók sem stafrænu formi. Skólar landsins verða hvattir til að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum árið 1918. Þá er ríkisstjórninni falið að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu náttúruminjasafns. Undirbúin verði ályktunartillaga um uppbyggingu innviða fyrir máltækni íslenskrar tungu og fimm ára áætlun um það efni. Loks verði Þingvallanefnd falið að ljúka stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar.

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að geta lokið kjörtímabilinu í breiðri samstöðu allra flokka um svo þýðingarmikið mál og legg ég til fyrir hönd flutningsmanna að tillagan gangi til síðari umræðu.