145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

900. mál
[10:57]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar menn minnast eins mikilvægra atburða og þessara er margt sem komið getur upp sem væri þess verðugt að setja í slíka ályktun. Við höfum verið að fjalla um það með hléum núna á seinni hluta þessa kjörtímabils hvað eðlilegt sé að setja í þessa ályktun. Lykilatriðið er að mínu mati að menn geti sammælst um verkefnin og að þau séu þess eðlis að um leið og við sammælumst um að farið verði í þau séum við sannfærð um að það gangi eftir.

Í þinginu hafa verið til umfjöllunar breytingar á stjórnarskrá Íslands, þrjú mikilvæg ákvæði sem ég hefði haldið að menn gætu sammælst um að ljúka hér í lok kjörtímabilsins. Það eru mér mikil vonbrigði að það sé ekki raunin að hægt sé að ljúka þeim. Ég held að það hefði verið góður bragur á því að halda áfram endurskoðuninni á stjórnarskránni í góðu samræmi og yfirbragði þess að flestir flokkar væru sammála um þessi þrjú ákvæði. Því miður náðist ekki samstaða um það. Á sama hátt held ég að óráðlegt hefði verið að setja inn í ályktunina einhver þau efni sem menn eru ekki tilbúnir til að sammælast um og vera síðan á sama tíma sannfærðir um að þau gangi eftir.