145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

900. mál
[10:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki ekki út í hörgul baksvið þeirra samræðna sem hæstv. forsætisráðherra kann að hafa átt við forustumenn annarra stjórnmálaflokka um breytingar á stjórnarskránni. Hann tiltók sérstaklega þrjá þætti. Það vill svo til að það eru þeir þrír þættir sem ég ber líka hvað mest fyrir brjósti og tel hvað mikilvægasta varðandi breytingar á stjórnarskránni. Ég get ekki fullyrt um hvort á reynt hafi verið á þá til þrautar. Í öllu falli stöndum við hér nú nokkrum klukkustundum fyrir þinglok og ekkert verður gert í því úr þessu.

Við þau tímamót þar sem við minnumst aldarafmælis sjálfstæðisins og fullveldisins er auðvitað eðlilegt að menn marki spor. Þau eru mörkuð með þessari tillögu. Að flestu leyti eru það efnisleg spor. Gert er ráð fyrir því að ný bygging verði hönnuð. Fyrirkomulag Þingvalla, þjóðhelgarinnar, verði lokið að fullu. Sömuleiðis er talað heldur lauslega um að hvetja skólafólk til þess að minnast þessara tímamóta.

Ég hefði talið að við þessar aðstæður og þessi tímamót hefði það verið eðlilegt að Alþingi lofaði sjálfu sér því að hafa lokið gerð nýrrar stjórnarskrár fyrir þennan saman tíma. Það setti sér tveggja ára tímamark til þess að lúka stjórnarskránni. Eftir atvikum kynni það, eftir því hvernig vindar mundu blása, að hafa orðið eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi hér áðan um einstök atriði. Ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að ná sammælum um það meðal þingheims að gera nýja stjórnarskrá á grundvelli þeirra draga sem stjórnlagaráð á sínum tíma sendi frá sér. Mikil vinna hefur farið fram. Þjóðfundur hefur fjallað um þetta mál, þannig að segja má að þjóðin hafi þegar komið að þessu.

Þess vegna (Forseti hringir.) vil ég ítreka mína spurningu til hæstv. forsætisráðherra: Er ekki (Forseti hringir.) mögulegt enn þá að skoða það áður en þingi lýkur að smella inn í þessa tillögu, ákvæði um (Forseti hringir.) lúkningu nýrrar stjórnarskrár?