145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

900. mál
[11:01]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka svar mitt. Hv. þingmaður kallar á að ná samstöðu um að ljúka heildarendurskoðun á stjórnarskránni á tveimur árum, en það er reyndar í andstöðu við marga þá flokka sem hér sitja á þingi sem telja að skynsamlegra sé að fara frekar þá leið sem til að mynda nágrannar okkar á Norðurlöndum, Norðmenn og fleiri, hafa farið þar. Þeir hafa sett sér mun lengri tíma fyrir þetta og taka ákveðna kafla fyrir og ljúka þeim. En okkur auðnast ekki einu sinni að setja inn þrjú mikilvæg ákvæði en þau er varða auðlindir í þjóðareigu, þjóðaratkvæðagreiðslur eða aðkomu almennings að beinum þjóðaratkvæðagreiðslum, og í þriðja lagi ákvæði er varðar náttúru landsins. Okkur auðnast það ekki einu sinni eftir alla þá vinnu sem unnin hefur verið. Þá tel ég og taldi það mjög ósennilegt að við ættum að fara að setja ákvæði um þetta inn í þingsályktunartillöguna.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um það að og við höfum oft rætt það, að þegar við þingmenn höldum upp á 1. desember, að æskilegt væri upp á samhengi hlutanna, söguna og annað, að skólar landsins, þ.e. ekki bara stúdentar við háskólana, heldur einnig á öðrum skólastigum, tækju þennan dag til sín með skýrari hætti og færu svolítið yfir hversu mikilvægum áfanga var þar náð í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Af þeim ástæðum er sú ályktun höfð í þingsályktunartillögunni, þ.e. til þess að tryggja að um langa framtíð munum við minnast þessara helstu merkisviðburða í sjálfstæðisbaráttu okkar.