145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[11:34]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hér upp og þakka velferðarnefnd kærlega fyrir gott samstarf nú í morgun og í gær varðandi þær breytingar sem við erum að gera á frumvarpinu. Ég vil enn á ný fá að nota tækifærið og óska okkur öllum til hamingju með þessar gífurlega miklu breytingar sem við stöndum vonandi sem flest sameiginlega að. Þetta eru hvað mestu breytingar til einföldunar á almannatryggingakerfinu sem gerðar hafa verið áratugum saman. Þetta hefur verið unnið í góðu samráði við hagsmunasamtök aldraðra sem hafa komið að vinnunni árum saman og sjá loks að þingið er að afgreiða þessar breytingar. Við erum að einfalda kerfið, auka sveigjanleika og við erum að tryggja þeim sem lakast standa sambærileg kjör og þeim sem minnst hafa á vinnumarkaðnum. Þetta er gífurlega stórt hagsmunamál. Ég er mjög ánægð með að þetta skuli verða að lögum í dag.