145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[11:37]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við í Bjartri framtíð styðjum þá breytingartillögu sem er gerð núna, ekki síst að kröfu ASÍ, þar sem verið er að koma til móts við þær kröfur. Við fögnum því að náðst hafi samkomulag um að breyta því. En við erum á gulu í málinu sjálfu. Þrátt fyrir að hér sé réttilega verið að bæta gríðarlega vel í, kjarabætur til eldri borgara sérstaklega og öryrkja, þá er margt í þessari aðferðafræði sem við erum ekki sammála. Breytingartillaga af okkar hálfu, sem var lögð fram í gær og felld, var, eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sagði frá áðan, til verulegra bóta. Þá var líka mjög sorglegt að öryrkjar skyldu ekki vera með í þessum lokapakka. Það hefði verið mjög gleðilegt ef allir hefðu getað verið sammála og samstilltir í þessu mikilvæga máli, ekki síst til þess að heiðra minningu hins mæta manns, Péturs heitins Blöndals, sem var manna ötulastur við að koma þessu á. Það er líka ótrúlega skrýtið að við skulum ekki, eftir 11 ár og fleiri hundruð fundi, geta verið sammála. Það er líka mjög sorglegt. En þetta eru góðar kjarabætur. Við fögnum því, en við verðum á gulu í málinu.