145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[11:45]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir þau orð sem hér hafa fallið, ég skil eiginlega ekki hjásetu í þessu máli vegna þess að það er svo gríðarleg kjarabót sem hér er verið að gera fyrir aldraða, sú almesta sem gerð hefur verið, alla vega í mjög langan tíma, og það er sérstaklega fyrir þá aldraða sem minna mega sín. Ég vil fá að segja það hér, af því að ég tilheyri þessum hópi, að auðvitað hefur stór hluti aldraðra á Íslandi það mjög gott, við skulum alveg vera meðvituð um það, en það eru nokkrir sem lent hafa á milli skips og bryggju og þeim þurfum við að hjálpa. Ég skil ekki að 10 milljarða aukning núna eigi ekki að bæta neitt — 10 milljarðar. Og að menn skuli ekki vilja þiggja það fyrir þá sem minna mega sín, (Gripið fram í.) fyrir aldraða — ég skil það bara ekki. (Gripið fram í.)