145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[11:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að stjórnarmeirihlutinn hefur ákveðið að falla frá breytingunni gegn vilja verkalýðshreyfingarinnar að hækka lífeyristökualdurinn upp í 70 ár á almennum markaði. Ég vil hins vegar nota tækifærið þegar ég styð þessa breytingu og taka undir með hæstv. fjármálaráðherra í orðum hans áðan um atkvæðagreiðsluna, um það mikilvæga verkefni sem bíður nýs þings sem er að ljúka verkefninu um jöfnun lífeyrisréttinda þannig að allir landsmenn búi við eitt og sama lífeyriskerfið og að við forðumst þá freistingu að vísa réttindum til framtíðar inn í ófjármagnaða framtíð og blekkjum okkur með því að við getum mætt þörfum einstakra hópa með því að búa til einhverjar skuldbindingar sem einhverjir aðrir þurfa að borga einhvern tímann seinna. Við eigum að skapa og vera sammála um það á nýju þingi að búa til eitt kerfi fyrir alla landsmenn sem er fullfjármagnað og þess vegna mjög mikilvægt að öll spilin í þessu máli séu uppi á borðinu fyrir nýtt þing og að enginn geti komist hjá því að taka afstöðu til þessarar heildarmyndar fyrir áramót.