145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[12:06]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég segi að sjálfsögðu já. Ég vil fá að nota tækifærið og þakka fyrir mjög gott samstarf við velferðarnefnd, alla þá vinnu sem hún hefur innt af hendi, ekki bara í þessu stóra grundvallarmáli varðandi breytingu á almannatryggingunum heldur öll þau stóru mál sem velferðarnefnd hefur verið að afgreiða í góðri sátt í þinginu á þessu kjörtímabili. Þar má nefna grundvallarbreytingar á húsnæðiskerfinu sem munu svo sannarlega hjálpa þeim sem minnst hafa, nýtt greiðsluþátttökukerfi mun hjálpa lífeyrisþegum, þeim sem minnst hafa, og svo núna þessi grundvallarbreyting á almannatryggingakerfinu. Þetta eru risaskref í þágu velferðar. Ég vil þakka kærlega fyrir þann árangur sem þið eruð að ná með því að styðja þetta mál.