145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

félagsleg aðstoð.

776. mál
[12:21]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað mjög óréttlátt að fatlað fólk sem býr sjálfstætt og nýtur persónulegrar aðstoðar þurfi að hafa ökuskírteini sjálft eða búa með einhverjum sem er með ökuskírteini til að fá bifreiðastyrki. En með því að samþykkja frávísunartillögu velferðarnefndar beinum við þeim rökstuðningi til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra að breyta reglugerðinni þannig að þetta ákvæði verði tekið úr henni. Það er mikið réttlætismál. Ég fagna þessum lyktum. Ég fagna mjög ánægjulegu samstarfi við hæstv. ráðherra í málinu og velferðarnefnd.

Þetta er væntanlega mín síðasta ræða hér í pontu Alþingis. Af því tilefni er auðvitað mjög mikilvægt að missa ekki stjórn á tilfinningum sínum og vera ekki of meyr og ekki of „sentimental“, þannig að ég ætla bara að segja þetta:

Lyktir þessa máls eru, störf okkar hér almennt eru, þessi þjóð er, Björt framtíð er að sjálfsögðu, svo sannarlega, hæstv. forseti hefur verið og er, og vonandi hafa þingstörf mín svona nokkurn veginn verið, og vonandi verður næsta þing og þið öll, kæru samstarfsmenn og vinir, eruð svo sannarlega: skárri en ekkert. [Hlátur í þingsalnum.] (Gripið fram í: Heyr, heyr.)