145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu.

804. mál
[12:24]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Mig langaði bara að þakka utanríkismálanefnd og framsögumanni málsins fyrir að taka þetta mál þannig að við getum afgreitt það á Alþingi í dag. Mig langar að vitna í stutta grein eftir Kára Helgason og Sævar Helga Bragason um þetta mál, með leyfi forseta:

„Hver einasta króna sem Ísland legði til í ESA myndi skila sér til baka til atvinnulífsins í formi úthlutaðra verkefna. Þá eru ekki meðtalin þau óbeinu áhrif á hagkerfið sem tengd nýsköpunarstarfsemi hefði í för með sér. Í ítarlegum úttektum sem gerðar voru á þátttöku hinna Norðurlandanna í ESA var komist að þeirri niðurstöðu, að fyrir hverja milljón króna sem varið var í samstarf við ESA urðu til 4 til 5 milljónir í veltu fyrir þarlend fyrirtæki.“

Það sem skiptir öllu máli er að í leiðinni verður hægt að segja íslenskum skólabörnum í fyrsta skipti: Hey, krakkar, þið getið orðið geimfarar!