146. löggjafarþing — 1. fundur,  6. des. 2016.

kosning forseta skv. 1. mgr. 3. gr. þingskapa.

[16:17]
Horfa

Aldursforseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Nú fer fram kosning forseta Alþingis samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þingskapa og eru þeir einir í kjöri sem tilnefndir eru. Mér hefur borist ein tilnefning um Steingrím J. Sigfússon 3. þingmann Norðausturkjördæmis. Eru fleiri tilnefningar? Aðrar tilnefningar hafa ekki borist og er þá Steingrímur J. Sigfússon einn í kjöri. Þar sem aðeins er einn í kjöri er ætlun forseta að láta kosninguna fara fram með atkvæðagreiðslukerfinu. Ef ekki eru gerðar athugasemdir við þann hátt á kosningunni fer hún fram með þeim hætti.

Kerfið er þannig stillt að jafna má við leynilega kosningu. Töflurnar á veggjunum munu aðeins sýna hverjir hafa neytt atkvæðisréttar síns en ekki hvernig þeir greiða atkvæði. Það sama gildir um geymsluminni tölvunnar. Þeir sem kjósa Steingrím J. Sigfússon ýta á já-hnappinn en þeir sem skila vilja auðu ýta á hnappinn sem merktur er „Greiðir ekki atkvæði“. Gult ljós kviknar við miðhnappinn þegar atkvæði hefur verið greitt, sama á hvorn hnappinn er ýtt, og eins kviknar gult ljós á veggtöflunni.

[Gengið var til forsetakosningar. Atkvæði féllu þannig að Steingrímur J. Sigfússon, 3. þm. Norðaust., hlaut 60 atkvæði, 1 þingmaður greiddi ekki atkvæði og 2 voru fjarverandi.]