146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi skatt- og tollabreytingarnar sem taka gildi um næstu áramót er þar um að ræða áætlun sem við ákváðum að hafa þrepaskipta, m.a. til þess að áhrif þeirra kæmu ekki fram öll í einu. Ég tel að það hafi verið ábyrg nálgun. Lækkun neðsta þrepsins er mikilvæg kjarabót, ekki síst fyrir þá sem lægst hafa launin. Sama gildir í raun og veru um brottfall miðþrepsins. Þar er um að ræða ráðstafanir sem hafa um það bil 3,8 milljarða áhrif á fjárlögin. Það eru algjör lágmarksáhrif í stóra samhengi hlutanna þar sem heildartekjur ríkisins eru yfir 770 milljarðar.

Tollabreytingin er hins vegar annað mál af öðrum toga. Þar er um að ræða niðurfellingu tolla sem ég tel að muni bæði koma framleiðslufyrirtækjum á Íslandi til góða (Forseti hringir.) en líka verslun og almennt neytendum. Það væri glapræði að láta það tækifæri úr hendi sleppa að fylgja þeirri tímamótabreytingu eftir.