146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég minni á að við erum að leggja til að krónutölugjöld og skattar hækki á næsta ári umfram verðlag. Í því felst ákveðin mótvægisaðgerð í þessu samhengi. Það er í sjálfu sér mjög auðvelt að koma hér upp og rekja langa lista af ýmsum mikilvægum verkefnum, en við verðum einfaldlega að kunna okkur magamál í útgjöldum. Við getum ekki gert allt í einu. Við erum nýbúin að stórhækka laun. Það er ástæðan fyrir því að kaupmáttur launa hefur vaxið um 10% ár eftir ár. Þetta er algjörlega sögulegt. Þar með var tekin ákvörðun um að ráðstafa svigrúminu sem við höfðum í launahækkanir, m.a. til heilbrigðisstétta. Svo vorum við að taka aðrar ákvarðanir líka á undanförnum árum eins og til dæmis að við ætlum næst að ráðast í að byggja nýjan Landspítala. Við erum í fyrsta skipti í þeirri fjármálaáætlun, sem við samþykktum í ágúst, komin með fjármögnun á það gríðarlega stóra verkefni. Auðvitað þýðir þetta að við erum að forgangsraða fjármunum. Við höfum forgangsraðað þeim í laun; almenni markaðurinn sérstaklega til þeirra sem minnst hafa milli handanna. Við höfum á sama (Forseti hringir.) tíma verið að auka framlög til mennta- og heilbrigðiskerfis. Má ég minna á að við höfum aukið framlög til almannatrygginga um 20 milljarða á 12 mánuðum.