146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:08]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna á þessu fjárlagafrumvarpi. Það þarf vissulega að afla tekna. Því vakti það athygli mína þegar ég fór yfir þær forsendur sem liggja að baki veiðigjöldum sem nú eru álögð á næsta ári að þau eru áætluð um 5,5 milljarðar. Í þessu samhengi skulum við líka skoða útgjöld ríkissjóðs í stoðkerfi sjávarútvegsins, útgjöld vegna stjórnsýslunnar, vegna Hafró og vegna ýmissa annarra mála, þau heildarútgjöld eru um 6,3 milljarðar. Svo kemur eitthvað inn sem tekjur á móti. Mér reiknast til og spyr hvort hæstv. ráðherra hafi sömu reiknireglu, finni það sama út, að rentan af fiskveiðiauðlindinni þegar allt þetta er tekið saman er 1,5 milljarðar sem ríkissjóður fær á milli. Mig langar að (Forseti hringir.) spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist það vera sanngjörn skipting fyrir þessa auðlind sem er sameign þjóðarinnar?