146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað umræða sem er mjög erfitt að taka í andsvörum í fjárlagaumræðu. En er það vandamál að stór fyrirtæki þar sem hagræðingin er mest skili mestum arði og arðgreiðslur séu þar? Það eru greiddir skattar af þeim arðgreiðslum. Ef við ætlum að stilla veiðigjöldunum á Íslandi miðað við það sem gerist best hjá stærsta fyrirtækinu í landinu þá munum við ganga af litlu og meðalstóru aðilunum dauðum. Það er öruggt. Þess vegna er veiðigjaldið eins og það er í dag. Það er enn þá sem betur fer hvati til þess að auka hagræðingu og hámarka virði þess sjávarafla sem menn koma með að landi og eru að vinna hér á landi með þeim hætti að við sköpum meiri verðmæti fyrir sjávarafurðir heldur en nokkur önnur þjóð. Það er vegna þess að kerfið sem við höfum smíðað er þannig.

En ef hv. þingmaður er að boða það að við eigum að stilla veiðigjöldin miðað við það fyrirtæki sem best gengur í landinu þá er hún að boða það að henni sé slétt sama um lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki.