146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Hann fór þar vel yfir stöðuna. Ef við horfum á efnahagsreikninginn þá er staðan mjög góð en hún er jafnframt viðkvæm, eins og hæstv. ráðherra benti á. Það höfum við vitað lengi, m.a. út frá umsögn frá Seðlabanka Íslands um fjármálastefnuna. Þar bendir bankinn á að ef ekki sé talið álitlegt að draga úr fjárfestingum hins opinbera þurfi að fara aðrar leiðir, t.d. að afla aukinna tekna, og voru skattahækkanir nefndar sem leið.

Frá því að bankinn lagði umsögn sína fram 21. maí sl. höfum við farið í kosningar og allir flokkar hafa lofað kjósendum innviðauppbyggingu, einnig flokkur hæstv. ráðherra. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki augljóst að eina leiðin til að koma til móts við kosningaloforð flokks hans og annarra sé að hækka skatta.