146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:58]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það árar vel í íslensku efnahagslífi um þessar mundir. Helstu hagvísar bera þess skýr merki. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands frá nóvember er hagvöxtur á Íslandi 4,8% eða tæpu prósentustigi meiri en spá Hagstofunnar frá því í febrúar sama ár, en hagvöxtur var 4,2% fyrir árið 2015. Vöxtur fjárfestinga hefur einnig verið talsvert meiri en Hagstofan gerði ráð fyrir í sínum spám eða 21,7% samkvæmt tölum frá því í nóvember en spáin frá því í febrúar gerði ráð fyrir um 12% vexti, sem er þó umtalsvert.

Skuldir heimila lækkuðu að raunvirði um tæplega 5% á árinu 2015 en lækkun skuldahlutfallsins má rekja til aukinnar landsframleiðslu en einnig umtalsverðrar lækkunar á nafnvirði skulda sem að stærstum hluta stafar af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til lækkunar á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána.

Á sama tíma og skuldir almennings hafa lækkað hefur kaupmáttur launa aukist um fjórðung á þessum tæpu fjórum árum og hefur aldrei mælst meiri. Staða ríkissjóðs hefur stórlega batnað, ekki síst vegna vel heppnaðrar áætlunar stjórnvalda um afnám hafta og hvernig tekið var á þrotabúum hinna föllnu banka. Verðbólga er innan vikmarka Seðlabanka Íslands og atvinnuleysi er hverfandi. Það er sérstakt fagnaðarefni hvað atvinnuleysi hefur minnkað mikið á síðustu árum.

Þjóðartekjur á mann á Íslandi eru með því hæsta sem gerist í heiminum. Nýjustu tölur frá OECD sýna okkur að jöfnuður á Íslandi er meiri en víða annars staðar. Við mælingar á jöfnuði er notaður svokallaður Gini-stuðull sem er alþjóðlegur mælikvarði á tekjujöfnuð. Stuðullinn er frá 0 sem endurspeglar fullkominn jöfnuð, þ.e. þegar allir hafa sömu tekjur, og upp í 100 sem gefur til kynna fullkominn ójöfnuð. Síðustu tvö ár hefur Gini-stuðullinn verið lægstur á Íslandi af OECD-ríkjunum. Þess ber þó að geta að þó svo að mat á Íslandi sé fyrir árið 2015 þá eru ýmis samanburðarlönd með eldri tölur en nýrri tölur ættu þó ekki að bylta niðurstöðunni í sjálfu sér þó að þær gætu haft einhver minni háttar áhrif á heildarmyndina.

Til þess að ríkisfjármálin séu í lagi þarf að sýna festu og stöðugleika, sérstaklega þegar þenslumerki eru í hagkerfinu, til að sporna við ofhitnun en gert er ráð fyrir að framleiðsluspenna nái hámarki í byrjun næsta árs, 2017. Gangi hagspár hins vegar eftir verður yfirstandandi hagvaxtarskeið a.m.k. áratugur og þar með það lengsta á lýðveldistímanum. Fram undan eru því miklar áskoranir í hagstjórn íslenska ríkisins. Þar ber helst að nefna að hamla hækkun raungengis, hemja ruðnings- og gengisáhrif ferðaþjónustunnar og síðast en ekki síst stuðla að stöðugleika á vinnumarkaði.

Hæstv. forseti. Á fyrri hluta kjörtímabilsins einhenti ríkisstjórnin sér í að ná utan um ríkisútgjöldin og leggja með því móti grundvöll að því sem nú er að eiga sér stað. Þá var lagður grunnur að því sem þjóðin er nú að uppskera. Auknum fjármunum var sérstaklega forgangsraðað í þágu almannatrygginga og heilbrigðis- og menntamála í kjölfar umtalsverðra aðhaldsráðstafana á útgjaldahlið ríkissjóðs á árunum 2009–2012. Í fjárlögum yfirstandandi árs hefur auknum framlögum úr ríkissjóði verið varið til að efla og bæta þjónustu velferðarkerfisins og er vöxtur útgjalda á árinu um 5%. Á föstu verðlagi eru frumgjöld orðin 7% hærri í ár en árið 2006.

Því ber að fagna að tekjur ríkisins skuli aukast og að fjórða árið í röð stefni í hallalausan ríkisrekstur. Tekjuaukning hefur þannig verið nýtt til að auka framlög til grunnþjónustu. Nokkuð hefur áunnist í þessum efnum en nokkuð er þó í land með að hefja raunverulega niðurgreiðslu skulda og vaxtakostnaður er enn allt of mikill.

Við getum örugglega öll verið sammála um að brýnt sé að halda áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs svo að við getum nýtt fjármuni ríkisins í uppbyggingu innviða í meira mæli fremur en að nýta þá í niðurgreiðslu á vaxtakostnaði.

Þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs árið 2016 var vaxtakostnaður, eða 72 milljarðar kr.

Virðulegi forseti. Horfum nú aðeins á heildarmyndina. Hvert er skuldahlutfallið okkar og hvers vegna erum við að greiða svo há vaxtagjöld og hver eru markmiðin?

Heildarskuldir hins opinbera eru um 60% af vergri landsframleiðslu sem er almennt í ágætu meðallagi miðað við samanburðarlönd. Þó er vaxtakostnaður Íslands með því mesta sem gerist á meðal samanburðarlandanna. Til að vega á móti halla á vaxtajöfnuðinum þarf að skila ríkulegum afgangi á frumjöfnuði ríkissjóðs sem er meiri en hjá nokkru ríkja ESB. Ein helsta áskorun okkar næstu árin felst í að draga enn frekar úr skulda- og vaxtabyrði ríkissjóðs. Markmiðið er að lækka opinberar skuldir, þ.e. ríkissjóðs og sveitarfélaga, niður fyrir lögboðið hámark árið 2020.

Við höfum náð árangri í að minnka skuldasöfnun og vaxtakostnað og ætlum okkur að gera enn betur. Á sama tíma æpir á okkur uppsöfnuð fjárfestingarþörf í innviðum, svo sem samgöngumannvirkjum. Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar og fjölgun ferðamanna kallar á aukin útgjöld í heilbrigðis- og velferðarmálum. Ýmsar tölur benda til þess að menntakerfið okkar sé líka að dragast aftur úr samanburðarríkjum. Framlög til háskóla eru t.d. hlutfallslega mun lægri hér á landi en í þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við.

Nýjustu fregnir af grunnskólunum okkar eru einnig stórkostlegt áhyggjuefni þar sem börnin okkar eru samkvæmt mælingum að dragast verulega aftur úr öðrum þjóðum hvað námsárangur varðar. Rekstur framhaldsskólanna er erfiður. Við verðum að taka þeim fréttum alvarlega og gera miklu betur.

Gott menntakerfi er lykill að farsæld þjóðar en það er mjög brothætt. Ef menntakerfið heldur áfram að drabbast niður þá berum við ábyrgð á skertum framtíðarmöguleikum barnanna okkar í hinni alþjóðlegu samkeppni á vinnumarkaði. Sömuleiðis drögum við úr framtíðarmöguleikum Íslands í samkeppni þjóðanna. Það má ekki gerast.

Sitjandi ríkisstjórn er meðvituð um erfiða stöðu menntakerfisins og hefur, eins og fyrr segir, lagt áherslu á uppbyggingu þess. Heildarútgjöld framhaldsskólastigsins hafa til að mynda aukist um 25% að raungildi á árunum 2013–2016. Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að framlög til framhaldsskóla aukist um 36% að raungildi frá árinu 2013 fram til ársins 2021, það jafngildir ríflega 70% aukningu á hvern nemanda á tímabilinu, og rekstrarframlög háskólastigsins hækki að raunvirði um 37% á hvern ársnemanda á árunum 2013–2021. Framlög til rannsókna og tæknimála í samkeppnissjóðum jukust um ríflega 60% að raunvirði á tímabilinu 2013–2016.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2017 er gert ráð fyrir aukningu útgjalda til mennta- og menningarmála, svo sem vegna styrkingar á rekstrargrunni háskóla og framhaldsskóla, auk þess sem veitt er framlag til listaframhaldsskóla til eflingar tónlistarfræðslu, samtals 2,5 milljarðar kr.

Ég er ánægð með þessa aukningu en ég hef samt sem áður áhyggjur af menntakerfinu. Þar liggja framtíðarmöguleikar okkar og að því fjöreggi verðum við að hlúa.

Fráfarandi ríkisstjórn lagði megináherslu á uppbyggingu heilbrigðiskerfisins á síðasta kjörtímabili, og ekki var vanþörf á eftir áralangan niðurskurð. Framlög til Landspítalans hafa aukist frá árinu 2013 um ríflega 30%. Landspítalinn fær 3,9 milljörðum kr. meira en í fjárlögum yfirstandandi árs. Heildarframlög til Landspítalans verða þá tæplega 59,3 milljarðar kr. samkvæmt frumvarpinu. Þá verður rúmlega 1,5 milljörðum kr. varið í tæki og búnað eða rúmlega hálfum milljarði meira en á þessu ári.

Framlög til heilbrigðiskerfisins hafa aldrei verið meiri, framlög til tækjakaupa voru stóraukin, hafin var bygging hjúkrunarheimila og áætlun um áframhaldandi uppbyggingu þeirra samþykkt.

Útgjöld til heilbrigðismála í heildina á tímabilinu 2014–2016 voru aukin um 38,5 milljarða kr. sem er 16% raunaukning.

Í framlögðu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir enn frekari aukningu á rekstrarframlögum til heilbrigðismála, þar af eru aukin framlög til styrkingar í rekstri sjúkrahúsa og heilsugæslu hátt í 4 milljarðar kr. og 1,5 milljarðar kr. vegna nýs rammasamnings um rekstur hjúkrunarheimila, samtals 7,3 milljarðar kr.

Þrátt fyrir þessar fínu tölur verð ég að viðurkenna að ég hef verulegar áhyggjur af heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Þar sem ég þekki best til, á Suðurlandi og á Suðurnesjum, hafa heilbrigðisstofnanir þurft að segja upp fólki til að hagræða í rekstri og þar hafa verið mörg mögur ár. Ég óttast því að viðbætur upp á örfáar milljónir á milli ára dugi ansi skammt. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þjónustar íbúa svæðisins, en þeim hefur fjölgað mjög hin síðari ár og spáð er áframhaldandi fjölgun vegna atvinnuuppbyggingar í kringum flugstöðina. HSS þjónustar líka alla flugfarþega — og hvað ef flugslys verður á svæðinu? Verðum við þá ekki að hafa vel búið og vel mannað sjúkrahús á svæðinu? Ég myndi halda það.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands tók við erfiðu búi þegar Sjúkrahús Vestmannaeyja var sameinað rekstrinum. Ofan á það bættist mikil fjölgun ferðamanna á því svæði. Þar eru einnig blómlegar sumarhúsabyggðir.

Fjárframlög ríkisins til þessara stofnana taka ekki nægilega mikið tillit til ofangreindra þátta. Enn virðist fyrst og fremst vera horft til íbúafjölda á þeim svæðum fremur en þeirra aðstæðna og þeirrar þjónustu sem þar þarf að veita.

Almannatryggingar eru stór útgjaldaliður og mikilvægur hluti af okkar ágæta velferðarkerfi. Alþingi breytti lögum um almannatryggingar síðasta haust en þær breytingar fela í sér stóraukin útgjöld ríkissjóðs til þess málaflokks, eða um ríflega 11 milljarða. Það var viðbótarskuldbinding sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í fjármálaáætlun.

Ellefu milljarðar eru miklir peningar, peningar sem fara til þeirra sem þurfa svo sannarlega á þeim að halda, aldraðra og öryrkja. Í því samhengi er gaman að segja frá því að samkvæmt nýrri þjóðhagsspá verður tekjuaukning íslenska ríkisins um 10 milljarðar á næsta ári og þar af leiðandi hafa aukin útgjöld til almannatrygginga sáralítil áhrif á stöðu ríkissjóðs og fjármálaáætlun helst því óbreytt.

Mig langar að nefna annan málaflokk sem ekki má gleymast eða falla í skuggann af öðrum. Það eru sjúkraflutningar og Landhelgisgæslan. Sjúkraflutningar eru mikilvægur hluti af heilbrigðisþjónustu okkar og öryggisnet um land allt. Sveitarfélögin bera orðið, mörg hver, mikinn kostnað við sjúkraflutninga sem kemur meðal annars til vegna fjölgunar ferðamanna. Landhelgisgæslan kemur oft að sjúkraflutningum og hefur auk þess mikilvægu hlutverki að gegna, bæði hvað varðar öryggi sjófarenda og við landamæraeftirlit. Því verðum við að gæta þess að Landhelgisgæslan hafi nægt fjármagn til reksturs. Samkvæmt frumvarpinu eru 3,8 milljarðar ætlaðir til Gæslunnar. Ef það verður niðurstaðan verður mjög erfitt fyrir Gæsluna að standa undir sínum helstu lögbundnu skyldum. Við skulum hafa það í huga þegar við afgreiðum fjárlögin fyrir árið 2017.

Það er líka rétt að minnast aðeins á samgöngumálin sem víða eru í ólestri. Þar höfum við trassað viðhald um langa hríð svo að víða er í óefni komið og það getur verið mjög kostnaðarsamt þegar upp er staðið að trassa hlutina. Núgildandi samgönguáætlun, sem Alþingi samþykkti samhljóða í haust, er 15 milljörðum kr. dýrari en fjármálaáætlun gerir ráð fyrir. Tekjuafgangur ríkisins er áætlaður um 28 milljarðar. Nú er komið að okkur þingmönnum að taka ákvörðun um hvernig við ætlum að forgangsraða þessum verkefnum, þ.e. viljum við halda áfram að leggja áherslu á áframhaldandi niðurgreiðslu skulda og draga þar með úr óheyrilegum vaxtakostnaði eða viljum við taka stóran hluta af tekjuafgangi ríkissjóðs og nýta hann til aðkallandi samgöngubóta? Þetta verður verkefni okkar þingmanna næstu daga.

Tíminn hleypur frá mér, mér liggur mikið á hjarta. Mig langar að koma aðeins inn á heilbrigðismálin. Þau hafa verið mikið til umræðu. Við þurfum að spyrja okkur að því þegar við ræðum um heilbrigðismál — talað hefur verið um að bæta milljörðum áfram inn í þann pakka — hvernig við nýtum þá fjármuni sem við setjum í málaflokkana. Hvernig nýtast fjármunirnir best?

Við viljum að sjálfsögðu öll betri heilbrigðisþjónustu um land allt.

Velferðarráðuneytið lét nýverið ráðgjafarfyrirtækið McKinsey vinna fyrir sig úttekt á Landspítalanum og heilbrigðiskerfinu okkar þar sem ýmsir þættir voru bornir saman við sambærilegar stofnanir í Svíþjóð. Niðurstöður úttektarinnar voru kynntar fyrir stjórnendum Landspítalans, þingmönnum og fleirum fyrir nokkrum mánuðum. Í úttektinni kom fram að það felast töluverð sóknarfæri fyrir okkur í því að nýta betur þá fjármuni sem fara til heilbrigðiskerfisins og í því samhengi þarf að huga að bæði ákveðnum kerfisbreytingum sem og bættu eftirliti, gæðastýringu o.fl. innan heilbrigðisstofnana. Það væri reyndar mjög áhugavert að fá sambærilega úttekt á íslenska menntakerfinu og okkar helstu stofnunum þar.

Við getum rætt endalaust um forgangsröðun. Við getum deilt um hvað eigi að gera og hversu mikið eigi að fara í hvern og einn málaflokk. Sitt sýnist hverjum og við verðum seint fullkomlega sammála hvernig skiptingin eigi nákvæmlega að vera. Því er nauðsynlegt að horfa á heildarmyndina og hafa skýra stefnu til framtíðar. Að mínu mati var það því mikið framfaraskref þegar Alþingi samþykkti nýverið í fyrsta sinn fjármálastefnu og fjármálaáætlun til fimm ára á grundvelli nýrra laga um opinber fjármál.

Hæstv. forseti. Efnahagsleg endurreisn Íslands eftir fall bankakerfisins haustið 2008 er vel á veg komin og hagspár fyrir næstu ár eru hagfelldar. Þó eru þenslumerki í hagkerfinu sem krefjast agaðrar hagstjórnar og kalla á réttar áherslur í opinberum fjármálum í heild. Áfram verður því þörf fyrir aðhaldssama stefnu um vöxt ríkisútgjalda til að auka afganginn og greiða niður skuldir. En við verðum, þrátt fyrir þá áherslu, að auka framlög til innviða sem eru margir hverjir orðnir verulega veikburða.