146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[15:16]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og skjallið, að maður sé allt í einu orðinn reyndur þingmaður, það er voðalega skemmtilegt. Ég er búin að vera ný í nokkur ár og núna er maður orðinn reyndur þingmaður, það er mjög gaman. Ég hef rétt eins og hv. þingmaður ekki lesið allt frumvarpið frá orði til orðs á þeim tæpa sólarhring sem við höfum haft til þess. Maður er því að reyna að setja sig inn í þessa hluti. Það er rétt að þarna er stórkostlegur galli og þar eru sóknarfæri fyrir okkur nýju og nýlegu þingmennina til að bæta þau vinnubrögð sem hafa verið viðurkennd í stjórnkerfinu á Alþingi mjög lengi, að það vanti 15 milljarða í stóran lið eins og samgönguáætlun til að fara í þau verkefni sem við erum öll sammála um að eru mjög aðkallandi. Það er komið að okkur, unga fólkinu sem ætlar að breyta Íslandi og gera allt betra, að laga svona vinnubrögð.

Staðan er sú í augnablikinu að við stöndum frammi fyrir þessu verkefni. Þetta er staðan og það er okkar, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að taka ákvörðun um það hvaðan við ætlum að taka þessa peninga. Ætlum við að taka þá af þeim tekjuafgangi sem ég nefndi, 28 milljörðum, og hafa þá minna til að greiða niður skuldir, eða hvað viljum við gera? Það er umræðan sem þarf að fara hér fram.

Varðandi þessa jörð í Flóahreppi, sem hv. þingmaður nefndi, þá treysti ég mér ekki til að fullyrða neitt um forsendur og lögmæti ráðuneytisins vegna þess að ég þekki málið ekki nógu vel. Hv. þingmaður getur kannski í seinna andsvari frætt mig nánar um það.