146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[15:18]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég segi þurfum við að ræða þetta. Það er kannski eitt þegar svona heimildir eru settar inn, ég geri ráð fyrir að menn vilji hafa vaðið fyrir neðan sig ef til kemur. Til að mynda hefur verið heimild í fjárlögum í mörg ár varðandi sölu á Landsbankanum. Þetta er heimild en svo er okkar á þingi að ákvarða hvernig við viljum taka á málum og hvernig við viljum landa þeim, eins og maður segir. Ég tel að það sé ástæðan. Jú, jú, við getum deilt um það í hvaða röð við viljum gera hlutina en ég held að þetta sé í sjálfu sér flestum að meinalausu. En við skulum ræða það.