146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[15:55]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst gott að heyra hv. formann fjárlaganefndar tala um samstöðu um það gríðarstóra verkefni sem fram undan er. Ég vona að sá andi skili sér í störfum nefndarinnar, sem eru allt annað en auðveld næstu dagana. Ég tek undir með honum að samstaða er um vandaða áætlunargerð, sem hluti af frumvarpinu byggir á, en ég verð að minna á að þótt okkur greini ekki á um það þá greinir okkur á um pólitíkina og það hversu gallað okkur finnst þetta frumvarp vera, eins og þingmaðurinn nefndi. Við erum kannski með ólíka áherslupunkta í því efni.

Ég vil hins vegar víkja að áætlunargerðinni. Mér þykir margt til bóta í lögum um opinber fjármál, t.d. það að í 20. gr. laganna sé talað um að í stefnunni skuli gerð grein fyrir því hvernig markmiðum verði náð, ábyrgðarskiptingu, tímasetningum, nýtingu fjármuna og áherslum við innkaup. Fyrir vikið erum við með töflur yfir aðgerðir í nánast öllum málefnaflokkum í frumvarpinu. Þess vegna stingur dálítið í augu að engin aðgerðabundin markmið skuli finnast. Nú veit ég ekki hvort það er víðar í skjalinu, en ég hnaut um atriði í kafla 10.20, um trúmál, þar sem undir eru 6,4 milljarðar. Öll markmiðin snúa að því að hér skuli ríkja trúfrelsi, sem eru grundvallarmannréttindi sem við erum auðvitað öll sammála um, en aðgerðir vantar til að ná þeim markmiðum fyrir þetta heila prósent af ríkisfjármálum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji slíka misbresti æskilega í frumvarpinu. Mun nefndin mögulega taka til skoðunar hvort slíkir misbrestir séu víðar? Telur hv. þingmaður að úr því megi bæta?