146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:29]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og koma sérstaklega inn á samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Það er nefnilega skoðun margra að þingheimur sé of upptekinn af samgöngumálum úti á landi og láti hjá líða að ræða um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Eins mikilvæg og samgöngumál á landsbyggðinni eru skiptir miklu máli þegar fólk kemur á höfuðborgarsvæðið að allir sitji ekki fastir í umferð með tilheyrandi mengun og töfum. Hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega borgarlínuna. Mig langar að leggja áherslu á það mikilvæga verkefni. Það var síðasta föstudag á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem borgarstjóri og allir bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu samkomulag um það hvernig skuli vinna að þessu máli. Þá er mikilvægt að brýna það fyrir þingheimi að þetta er það sem allar sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu eru sammála um að sé brýnasta samgönguverkefnið á næstu misserum.

Hæstv. ráðherra nefndi jafnframt Sundabraut og önnur mislæg gatnamót sem vel kann að vera að nauðsynlegt sé að fara í. Ég vil brýna okkur í því að hafa samstarf við sveitarfélögin, sem hafa skipulagsvaldið, og fylgja forgangsröðun þeirra. Borgarlínan, eins og hún hefur verið nefnd, getur aldrei verið eingöngu verkefni sveitarfélaga. Ríkisvaldið mun alltaf verða að koma að því, enda eigum við og rekum stóran hluta af stofnæðum á höfuðborgarsvæðinu og því eðlilegt að ríkisvaldið komi að því.

Ég þakka fyrir að þetta mál sé rætt hérna og brýni þingheim í að kynna sér sérstaklega þessi mál því ég held að þau verði mikið á dagskrá á næstunni hjá okkur. En ég get ekki hjá líða fyrst ég er komin hingað upp að nefna að samstarfssamningur sem gerður var milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um eflingu almenningssamgangna hefur því miður aldrei verið fullfjármagnaður í fjárlögum. Mér sýnist upphæðin núna vera svipuð og hún var í fyrra en þá er ekki tekið tillit til verðbólguþróunar, sem þó er skýrt ákvæði um (Forseti hringir.) á fyrstu blaðsíðu samningsins. Ég vil beina því til hv. fjárlaganefndar að skoða þann lið þegar nefndarmenn fara yfir fjárlögin.