146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Það má segja með sanni að hlýir vindar leiki um efnahag þjóðarinnar, ekki síður en landsmenn sjálfa, þessa dagana og virðast greiningaraðilar einhuga um að svo muni verða áfram, enn um sinn í það minnsta. Aðstæður í efnahagslífi landsmanna hafa heldur ekki verið betri um áratugaskeið. Landsframleiðsla er núna um 8% meiri að raunvirði en fyrir hrun. Atvinnuleysi er hverfandi og á þessu ári stefnir í að ýmis met frá síðasta þensluskeiði verði slegin, svo sem nýskráningar fólksbifreiða og utanferðir landsmanna.

Það er við slíkar kringumstæður sem reynir á hagstjórn í efnahagslífi hverrar þjóðar og þá hefur einmitt hagstjórnin undantekningarlítið brugðist í íslensku efnahagslífi. Það er mikilvægt að við höfum það í huga nú því að þrátt fyrir gott árferði eru ýmis gamalkunnug óveðursský farin að hrannast upp við sjóndeildarhring. Því vil ég í ræðu minni frekar beina augum að þessari hættu og ábyrgð okkar þar en að einstökum liðum fjárlagafrumvarps nú við 1. umr.

Meginábyrgð á hagstjórn er og verður ávallt borin uppi af tveimur aðilum, innlendum vinnumarkaði, með þeim kjarasamningum sem þar eru gerðir, og af Alþingi, með þeim ramma sem fjármálum ríkisins er þar markaður. Peningastefna Seðlabankans getur aldrei hamið þá krafta sem þessir aðilar geta leyst úr læðingi með ábyrgðarleysi, líkt og dæmin hafa sýnt ítrekað. Gott samspil vinnumarkaðar og ríkisfjármála við peningastefnu Seðlabankans er lykilatriði samræmdrar hagstjórnar. Þessir þættir, öðrum fremur, leggja grunn að stöðugu verðlagi við lágt vaxtastig.

Í viðtali við Spegilinn þann 4. maí 2010 gagnrýndi Jónas H. Haralz heitinn, einn fremsti hagfræðingur okkar Íslendinga, árangur okkar varðandi samræmda hagstjórn harðlega. Með leyfi forseta:

„Á Íslandi var slík samræming sífellt meira vanrækt eftir því sem leið á 20. öldina. Eftir 1995 er ekki hægt að tala um samræmda stjórn efnahagsmála. Á síðustu árum sáu allir að ríkisfjármál og peningastefna stönguðust á.“

Þessi orð eiga ekki síður við nú en þá. Ein helsta gagnrýni sem sett var fram á hagstjórn á síðustu tveimur þensluskeiðum var einmitt aðhaldsleysi ríkisfjármálanna. Sömu hagstjórnarmistökin voru endurtekin í bæði skiptin. Ríkisútgjöld voru aukin verulega að raunvirði á þenslutímum á sama tíma og skattar voru lækkaðir. Hvort tveggja verkaði til að magna enn frekar þá miklu þenslu sem var í efnahagslífinu. Mikilvægt er að hafa það í huga þegar við setjumst að umræðu um ríkisfjármál nú. Þau eru og verða ávallt ein helsta stoð hagstjórnar og það eina sem Alþingi Íslendinga hefur bein áhrif á. Við þurfum að nálgast það viðfangsefni af ábyrgð og festu.

Þrátt fyrir samfellt hagvaxtarskeið undangengin sex ár er þó betra jafnvægi í efnahagslífinu nú en oftast. Ólíkt mörgum fyrri hagvaxtarskeiðum hefur efnahagslífið verið drifið áfram af auknum útflutningi á vöru og þjónustu, en fyrst og fremst þjónustu. Uppgangur ferðaþjónustunnar hefur breytt samsetningu efnahagslífsins og skotið nýrri og myndarlegri stoð undir útflutningstekjur okkar. Vegna þessara breytinga hafa útflutningstekjur sem hlutfall af landsframleiðslu sjaldan ef nokkru sinni mælst hærri. Útflutningstekjur okkar undanfarin ár hafa verið liðlega helmingur landsframleiðslu samanborið við liðlega 30% áratugina tvo þar á undan. Hvað þetta varðar stöndum við nú jafn vel eða betur en nokkurt hinna Norðurlandanna eftir að hafa verið eftirbátur þeirra um áratugaskeið.

Þetta er helsta ástæða þess að jafnvægi er nú mun betra en áður hefur verið. Myndarlegur afgangur er af viðskiptum okkar við útlönd. Fyrirtæki og heimili hafa nýtt góðærið til að greiða niður skuldir og standa nú sterkar en um langt árabil. Kaupmáttur hefur aukist mikið og þrátt fyrir að launahækkanir hafi verið langt umfram framleiðniaukningu undanfarin ár hefur verðbólga haldist lág vegna styrkingar á gengi íslensku krónunnar.

Þó svo að vel hafi árað getum við ekki gengið út frá því að efnahagsskilyrðin verði okkur svo hagstæð miklu lengur. Ljóst er að gengið hefur þegar styrkst mun meira en fæst staðist til lengri tíma litið. Þannig hefur gengið nú styrkst um nær 20% á aðeins tveimur árum, á sama tíma og laun hafa hér hækkað um 18%. Hvort tveggja hefur mikil áhrif á rekstrarkostnað og afkomu útflutningsfyrirtækja og alls óvíst er hvernig ferðaþjónustan fær ráðið við svo miklar breytingar á svo skömmum tíma. Við höfum á örskotsstundu breyst úr ódýrum áfangastað í einn þann dýrasta í Evrópu. Með þessari þróun er vegið að þeirri undirstöðu sem útflutningsatvinnuvegirnir hafa verið í efnahagsþróun okkar á undanförnum árum. Sú þróun er ekki sjálfbær nú fremur en á fyrri tímum og mun án efa enda með sama hætti og áður ef ekki verður gripið inn í.

Það er gjarnan sagt að það þurfi sterk bein til að þola góða tíma og það á vel við einmitt nú. Mikil þensla og launahækkanir hafa leitt til umtalsverðra vaxtahækkana hjá Seðlabankanum á undanförnum misserum. Bankinn hefur einnig ítrekað gagnrýnt aðhaldsleysi ríkisfjármálanna við núverandi aðstæður. Þannig má raunar lesa óvenjuskýr skilaboð úr síðustu fundargerð bankans þar sem helstu rök gegn vaxtalækkun sem annars er talin full innstæða fyrir eru nefnd óvissa um aðhaldsstig ríkisfjármála í kjölfar kosninga og nýgenginn úrskurður kjararáðs um launakjör kjörinna fulltrúa og sú óvissa sem hann hefur valdið á vinnumarkaði.

Tvö mikilvæg skref hafa verið stigin á undanförnu rúmu ári til að stuðla hér að umbótum í hagstjórn. Fyrst ber þar að nefna tilraun vinnumarkaðar til að innleiða sambærileg vinnubrögð við gerð kjarasamninga og í nágrannalöndum okkar með svonefndu SALEK-samkomulagi. Þótt nokkur óvissa ríki um framtíð þess samkomulags er þetta afar mikilvægt skref sem brýnt er að stutt verði við með öllum ráðum og dáð.

Hins vegar samþykkti Alþingi undir lok síðasta árs lög um opinber fjármál sem voru afrakstur áralangrar vinnu til úrbóta á fjármálastjórn hins opinbera. Lögunum fylgja verulegar umbætur í vinnubrögðum framkvæmdarvalds og þings við undirbúning og afgreiðslu fjárlaga. Byggt er á langtímastefnumörkun og skýrar fjármálareglur innleiddar. Með þessum breytingum er lögð mun meiri áhersla á samhengi opinberra fjármála við áskoranir hagstjórnarinnar hverju sinni. Stefnan er mörkuð til fimm ára í senn og gert ráð fyrir að fjárlög hvers árs séu í öllum megindráttum við gildandi fjármálastefnu.

Fjárlagafrumvarpið nú er hið fyrsta sem Alþingi tekur til afgreiðslu samkvæmt hinum nýju lögum. Afgangur þess er í takt við fimm ára ríkisfjármálaáætlun, liðlega 1% af landsframleiðslu. Það veldur hins vegar áhyggjum að þingið afgreiddi á síðustu starfsdögum fyrir kosningar útgjaldaloforð upp á á annan tug milljarða sem ekki er tekið tillit til í þessu frumvarpi. Það gefur ekki góð fyrirheit um bætt vinnubrögð Alþingis í fjárlagagerðinni.

Við hljótum að spyrja okkur við upphaf þessarar fjárlagaumræðu hvort við höfum raunverulega lært af hagstjórnarmistökum fyrri ára. Ljóst er að vinnumarkaðurinn hefur þegar farið út af sporinu og þar eru horfur óljósar í skugga harðvítugra kjaradeilna en mikilvægt er að úr þeim ágreiningi leysist farsællega og án þess að stöðugleika verði ógnað.

Sú staðreynd gerir hins vegar enn mikilvægara en ella að mikils aðhalds sé gætt í ríkisfjármálunum. Á árunum 2003–2007 jukust útgjöld ríkissjóðs um liðlega 17% að raunvirði og var það aðhaldsleysi mikið gagnrýnt á sínum tíma. Sé horft til fjárlagafrumvarps núna hafa útgjöldin aukist um liðlega 17% á ný frá árinu 2013, þ.e. jafn löngu tímabili. Þó að undirstaða efnahagslífsins sé mun traustari nú en þá er þetta varhugaverð þróun. Það er því veruleg hætta á að við séum að endurtaka þau alvarlegu mistök sem gerð hafa verið í hagstjórn hér á landi á undanförnum áratugum.

Fjárlagaumræðan nú er því prófsteinn á vilja þingsins til að breyta og bæta vinnubrögð við fjárlagagerðina og tryggja að fjármál hins opinbera verði ekki enn og aftur til þess að kynda undir þenslu í þjóðarbúskapnum við aðstæður sem mega lítt við meira brennsluefni í þeim efnum. Við þær sérstöku aðstæður sem nú eru í þinginu, þar sem fjárlagafrumvarp er lagt fram án þess að meirihlutastjórn sé við völd, verður ábyrgð okkar allra enn meiri. Þó að vissulega sé kallað eftir auknum útgjöldum til ýmissa brýnna verkefna, svo sem uppbyggingar innviða sem og til heilbrigðis- og velferðarmála, verðum við að sýna aðgát og gera okkur grein fyrir að ekki er hægt að gera allt í einu. Skapa verður svigrúm fyrir þau mikilvægu verkefni með forgangsröðun ríkisfjármála til lengri tíma litið. Ber þar helst að nefna þann mikla vaxtakostnað sem ríkissjóður ber enn eftir hrun og nemur samkvæmt fjárlögum um 80 milljörðum kr. á ári. Með markvissri niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs, m.a. með sölu á eignum sem ríkissjóði hafa áskotnast við uppgjör slitabúanna, má létta vaxtabyrðina verulega og skapa það svigrúm sem nauðsynlegt er til að sinna mikilvægum og brýnum verkefnum á komandi árum.

Þegar aðstæður í efnahagslífinu eru jafn hagfelldar og raun ber vitni, kaupmáttur hefur aukist meira en dæmi eru um á fyrri hagvaxtarskeiðum og skuldastaða heimila og fyrirtækja batnað til mikilla muna, er einmitt lag að nýta hagfellda tíð til að innleiða ný og betri vinnubrögð.

Í því samhengi má hafa hugföst orð Johns F. Kennedys, fyrrum Bandaríkjaforseta, í umræðu um góðan árangur í efnahagsmálum í stefnuræðu sinni þann 11. janúar 1962. Þar minnti hann á að mikilvægt væri einmitt að nýta góðan árangur í efnahagsmálum til nauðsynlegra umbóta með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Rétti tíminn til þakviðgerða er á meðan sólin skín.“

Ríkisfjármálin eru í vissum skilningi þak hagstjórnarinnar. Þau veita efnahagslífinu ákveðið skjól, sér í lagi þegar veður eru válynd í efnahagslegum skilningi. Og þetta ágæta þak lekur.