146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:59]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er pólitíkin í þessu skjali og hvernig hún birtist. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir ýmsa þætti þess. Mig langar að nefna eitt sérstaklega sem hún kom inn á, skattlagningu tekna og hvernig við getum breikkað tekjustofna án þess endilega að hækka skatta.

Ég hnaut nefnilega um í frumvarpinu, á síðum 114 og 115, hugtakið skattastyrkir sem sló mig dálítið og virðist snúast um það að ákveðnir skattar, sem fólk greiðir í lægra þrepi eða nýtur einhverra undanþágna frá vegna ýmissa aðstæðna, eru túlkaðir sem styrkir frá hinu opinbera, af því að hægt væri að mjólka þjóðina aðeins meira með því að setja brauð í efsta þrep, það væri hægt að ná aðeins meiru út úr okkur með því að taka ýmsar niðurfærslur af fólki. Þess vegna sé þessi ónýtti skattur í raun styrkur. Mér þykir þetta ekki kræsileg sýn á okkur sem borgara í landinu. Mig langar því til að spyrja þingmanninn hvort hún myndi ekki vera sammála mér um það að kannski væri betra að horfa til raunverulegra skattastyrkja, samninga sem gilda um tekjur stóriðjunnar sem greiðir allt of lítið til samfélagsins, hvað þá tekjur fólks sem hefur allar sínar tekjur af fjárfestingum, nýtur þar annaðhvort hins lága fjármagnstekjuskatts eða beitir hinum ýmsu fyrirtækjafléttum til að komast algjörlega hjá skattheimtu. Hvort væri ekki betra að líta á þetta sem skattastyrk en þá 68 milljarða sem ráðuneytið reiknar sig upp í að verið sé að gefa almúganum í virðisaukaskattsstyrk?