146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:04]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka upplýsingarnar og þá skilgreiningu sem má finna í fjárlagafrumvarpinu.

Hvað varðar skattlagningu matvæla, ég er bara ekki nógu vel að mér í því. Maður heyrir svo mismunandi sjónarhorn og ég get skilið bæði sjónarmið. Ég vona að við hér séum öll að reyna að jafna gæði og lífskjör. Svo er það mismunandi hvernig fólk vill fara að því. Sumir vilja hafa lágan skatt á mat, aðrir segja: Það er ekki gott að gera það svoleiðis, við skulum frekar taka persónuafslátt, eða hvað?“ Það er umræða sem við þurfum að taka.

Umfram allt vil ég að við þingmenn höfum það að leiðarljósi í allri okkar meðferð á öllum þeim lögum sem fara hér í gegn að við séum að auka jöfnuð þeirra borgara sem búa hér á landi. Ég viðurkenni það, og mér finnst dálítið vanta upp á það kannski hjá sumum hv. þingmönnum, að fólk hefur ekki jöfn tækifæri. Það fæðist inn í mismunandi heima og það er okkar hlutverk, að mér finnst, að koma því svo fyrir að sem flestir er vaxa úr grasi og hefja sitt líf hafi jöfn tækifæri til að verða það sem þeir vilja. Það gerum við auðvitað fyrst og fremst með því að viðurkenna það fyrst að þessi aðstöðumunur er til staðar. Svo eru mismunandi leiðir til að vinna úr því. Ef við viðurkennum þetta ekki þá komumst við hvorki lönd né strönd í þessu.