146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarpið fyrir 2017. Ég ætla í máli mínu að tala fyrst og fremst um samgönguþáttinn í frumvarpinu. Innviðauppbygginguna sem við sem vorum í framboði fyrir síðustu kosningar, flestöll held ég, töluðum fjálglega um og lögðum mikla áherslu á að mikil og uppsöfnuð þörf væri í innviðauppbyggingu og í samgöngum. En því miður endurspeglar fjárlagafrumvarpið ekki þá ósk allra þeirra þingmanna sem sitja hér á þingi í dag, að menn vildu sjá að nú væri kominn tími til að spýta í lófana varðandi innviðauppbyggingu, sama hvort við tölum um viðhald vega, nýframkvæmdir, almenningssamgöngur, flugsamgöngur, hafnarframkvæmdir eða fjarskipti og uppbyggingu háhraðatenginga. Þar þyrfti virkilega að taka á. Það er ekki nóg að guma sig af að skila góðri niðurstöðu í fjárlögum og vera með það sem ríkisfjármálaáætlun leggur upp með, 1% af vergri landsframleiðslu í tekjuafgang, ef á hinn kantinn er komin svo gífurlega mikil uppsöfnuð þörf sem við þekkjum öll í samgöngum og innviðauppbyggingu í landinu. Þá er ekki hægt að hreykja sér af því að ríkissjóður hafi þennan tekjuafgang upp á 28 milljarða sem ríkisfjármálaáætlun miðar við, að hafa 1% af vergri landsframleiðslu í tekjuafgang.

Það urðu mér og eflaust mörgum hér á þingi mikil vonbrigði að þeirri vinnu sem var lögð í það að endurbæta samgönguáætlun, þverpólitískri vinnu sem lögð var fram í lok síðasta þings, er allri kastað fyrir róða í fjárlagafrumvarpinu. Það stendur ekkert eftir. Ætla menn að segja mér að þverpólitískt hafi menn vitað að það ætti ekkert að gera með þá vinnu? Menn horfðu til þess að þessi uppsafnaða þörf væri og menn vönduðu sig við að fara vel yfir hvar væri brýnast að bæta í varðandi viðhald, hvort sem væru héraðsvegir, tengivegir eða nýframkvæmdir. Menn forgangsröðuðu þar mjög vel og náðist sameiginleg niðurstaða allrar umhverfis- og samgöngunefndar í þeim efnum. Sem hljóðaði að lokum upp á tæpa 12 milljarða. Það getur vel verið að í dag kalli menn það óútfylltan víxil og kosningaloforð og ekkert með það að gera og yppa bara öxlum, þetta hafi bara verið dæmigert kosningaplagg. Var hæstv. fjármálaráðherra þá, þegar hann greiddi atkvæði með þessu plaggi, ábyrgur í sinni afstöðu? Hefði hann þá ekki átt að segja að þarna væri verið að fara fram úr fjármálaáætlun og að þetta væri þá eitthvað sem menn þyrftu að sýna fram á tekjur á móti? Ég veit ekki betur en að hæstv. fjármálaráðherra hafi greitt atkvæði með þessari tillögu. Þar með er hann ábyrgur fyrir því að til sé fjármagn fyrir þessari viðbót, breytingartillögu umhverfis- og samgöngunefndar, í lok síðasta þings.

Nú skora ég á þingheim að sýna þá ábyrgð við vinnu við fjárlögin í nefnd og í afgreiðslu þingsins í framhaldinu að fjármagna þessar tillögur. Þetta er uppsöfnuð þörf. Það er ekki neitt yfirboð sem var þarna á ferðinni. Þetta er uppsöfnuð þörf og við þekkjum það að vegamálastjóri og aðilar vítt og breitt um landið, sveitarstjórnarmenn og aðrir, hafa kallað eftir því að vegakerfi landsins verði bætt, það er orðið stórhættulegt. (Gripið fram í: Já, ég veit það.) Það munar um að fá hingað til lands ferðamenn sem í stefnir að verði hátt í 2 milljónir. Er ekki um 1,7 milljónir ferðamanna áætlaðar í ár? Og stefnir í 20–30% fjölgun á næsta ári. Stór hluti þessara ferðamanna tekur sér bílaleigubíla og keyrir um landið. Á þjóðveginum eru 39 einbreiðar brýr, fyrir utan aðra staði, á Vestfjörðum og öðrum stöðum sem falla ekki undir hringveginn. Þetta er auðvitað stór slysahætta fyrir allan þennan fjölda ferðamanna, fyrir utan okkur landsmenn sem búum við þessar aðstæður. Við getum ekki haldið áfram að gera eins og við gerum, við getum ekki mjólkað út úr ferðaþjónustunni gífurlega fjármuni en ekki skilað samsvarandi uppbyggingu innviða. Við getum ekki gert það. Það hlýtur að koma að þolmörkum í þeim efnum. Það er löngu komið að þeim þolmörkum. Við vitum það öll sem erum hér inni. Þó að við tölum um ýmsa aðra málaflokka þar sem við erum komin yfir þolmörk er ég að undirstrika þennan málaflokk hér og nú. Við erum rík þjóð. Við höfum fulla möguleika til að byggja upp slíkt samfélag að við getum búið hér í þokkalegri sátt og samlyndi við gott velferðarkerfi, góða innviði og góða umgjörð gagnvart okkar minnstu bræðrum eins og stundum er sagt á hátíðlegum stundum.

En samgöngur í landinu, það er eins og að við gerð þessara fjárlaga hafi þau mál bara dottið einhvers staðar á milli þilja í fjármálaráðuneytinu eða hvar sem þetta hefur að lokum verið unnið. Menn hafi hreinlega gefist upp á að koma saman þeirri niðurstöðu sem endurspeglar þá gífurlegu uppsöfnuðu þörf til margra ára. Nú treysti ég því að við gerum bragarbót í þessum efnum. Hv. þingmenn hér inni hafa eflaust fengið frá fólki og kjósendum sínum símtöl í dag eins og við sem erum í Norðvesturkjördæmi. Það urðu gífurleg vonbrigði á Vestfjörðum að Dýrafjarðargöngin voru algerlega ófjármögnuð í þessum fjárlögum. Það áttu að vera 1,5 milljarðar þar í framkvæmdir. Það eru sjö aðilar búnir að bjóða í það verk. Tilboð verða opnuð 10. janúar. Ég hugsa að ef menn bæta ekki ráð sitt gæti ríkið verið skaðabótaskylt varðandi þetta. En ég treysti því að menn sýni þann manndóm, og ég beini því kannski fyrst og fremst til hæstv. ráðherra núverandi starfsstjórnar og ég treysti þingmönnum almennt til þess, að bæta þarna úr og laga og fjármagna samgönguáætlun í raun og veru í heild sinni og segja þar með að ekki sé hægt að horfa upp á það að kostnaður verði meiri og meiri eins og vegamálastjóri benti á; eftir því sem við drögum viðhald vega og nýbygginga verða hlutirnir miklu dýrari.

Menn horfa á að við þurfum að fara með stöðugleikaframlagið í greiðslur á erlendum skuldum og við fáum þá lægri vaxtakostnað. Þetta er bara nákvæmlega sami hluturinn. Ef við leggjum fjármagn í viðhald vega og nýbygginga sem er komin mikil þörf á erum við að spara okkur til lengri tíma litið. Fyrir utan öryggisþáttinn í þessu öllu saman.

Það hefur líka verið talað um Herjólf. Og bara vítt og breitt um landið horfa menn upp á að framkvæmdir til viðhalds og nýframkvæmda, t.d. Dettifossvegur, þetta er allt úti í kuldanum. Við getum ekki sætt okkur við þetta. Talað hefur verið um við þessar sérkennilegu aðstæður, þar sem ekki er komin á nein starfhæf ríkisstjórn, að þingið verði þá að taka sér það vald sem það hefur auðvitað og hefur alltaf haft að samþykkja fjárlög og bera ábyrgð á því sem hefur verið samþykkt líka í áætlunum og fjármagna það sem þarf í þeim efnum, hvort sem það er heilbrigðiskerfið, menntakerfið, innviðauppbygging eða hvað það er. Það er alltaf talað um að forgangsraða. Það þarf líka að forgangsraða í tekjuhliðinni alveg eins og forgangsraða þarf í gjaldahliðinni. Þar hefur núverandi fráfarandi ríkisstjórn verið að afsala sér tekjum á kjörtímabilinu upp á 50–60 milljarða og verið að breyta því kerfi sem var í þrepaskiptu skattkerfinu sem var og er til jöfnunar þannig að það hefur nýst hálaunafólki betur en láglaunafólki. Þannig er veruleikinn. Þær tilfærslur og misskipting sem hafa orðið hér undanfarin ár eru mikið áhyggjuefni. Við þurfum að koma okkur saman um að koma í veg fyrir aukna misskiptingu í landinu.

Talað er um mikla þenslu og hættur á höfuðborgarsvæðinu, ég segi á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki mikil þensla víða á landsbyggðinni og hefur ekki verið. En þegar kemur að því að menn sjá viðvörunarljós kvikna varðandi þenslu á höfuðborgarsvæðinu, hverjir fá þá að gjalda þess? Það eru þeir landshlutar sem fengu aldrei þessa þenslu. Þá er oft fyrst klippt þar af varðandi einhverjar framkvæmdir sem eru áætlaðar loksins úti á landsbyggðinni, samanber Dýrafjarðargöngin og almenna uppbyggingu í vegakerfinu í landinu, höfnum og viðhaldi flugvalla. Þá er skorið þar af. Fólk er því orðið langþreytt á að horfa upp á að fá aldrei þessa þenslu til sín til að njóta þá einhvers en ekki bara að sitja undir niðurskurðarhnífnum þegar menn vilja draga saman seglin vegna hættumerkja í hagkerfinu, sem eru vissulega mikil. Það neitar því enginn. En það er ekki út af ofhitnun hagkerfisins á landsbyggðinni. Við þekkjum það öll sem þekkjum til á landsbyggðinni að þar eru menn að berjast fyrir því að halda atvinnu og reyna að bæta búsetuskilyrði.

En miðað við þetta, að ríkið sé búið að afsala sér svo miklum tekjum, spyr maður: Ef við hefðum ekki fengið þennan gífurlega fjölda ferðamanna til landsins með þeim tekjum sem þeim fylgja, þó að fráfarandi ríkisstjórn hafi ekki treyst sér til að leggja á komugjöld til dæmis til að afla tekna til innviðauppbyggingar, þá hefði ferðaþjónustan ekki skilað 60–70 milljörðum á ári í gegnum tekjur eins og virðisaukaskattinn. Við hefðum með góðu móti getað nýtt okkur þær tekjur miklu betur. En við höfum aftur á móti verið að horfa upp á að menn láta tekjustofnana leka niður. Ég spyr: Ef við hefðum ekki fengið þennan ferðamannafjölda, ef eldsneytisverð hefði ekki lækkað, ef ekki hefðu verið svona uppgrip eins og hafa verið síðustu ár varðandi uppsjávargeirann, ef þetta hefði ekki allt komið til, hvar værum við stödd þá með ríkissjóð sem væri búinn að afsala sér öllum þessum tekjum? Við værum ekki í góðum málum. Það væru, held ég, svört fjárlög sem fjármálaráðherra hefði lagt hér fram. Nema hann hefði haft kjark til að standa fyrir eðlilegri tekjuöflun til að standa undir okkar velferðarkerfi en treysta ekki bara á einhverja uppsveiflur sem eru ekkert í hendi, eins og lækkað eldsneytisverð, þennan ferðamannafjölda eða gott gengi í sjávarútvegi sem við vitum að er alltaf sveiflukennt. Við þurfum að laga (Forseti hringir.) fjárlagafrumvarpið mikið og ég treysti hv. þingi til að gera það.