146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:47]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir kynningu hans á fjárlagafrumvarpinu í dag og þingheimi fyrir umræðuna. Ég gæti haft yfir fræg orð úr sögunni: Hér stend ég og get ekki annað, en þau standast ekki vegna þess að ég kaus að leita eftir starfi þingmanns, og fékk til þess fulltingi, til þess að stuðla að félagslegum lausnum margra brýnna verkefna og ýta undir græn gildi. Sem nýr þingmaður frammi fyrir hálftómum þingsal og engum ráðherra get ég sagt að mér fallast næstum hendur frammi fyrir 600 síðna fjárlagaplöggum. Þetta líkist því að fá í hendur Gamla og Nýja testamentið og byrja að leita uppi og bera saman ólíkar greinar með númerakerfi.

En hvað um það, skoðun á gjaldahlið A-hlutans leiðir í ljós að einmitt hin grænu gildi liggja að mörgu leyti óbætt hjá garði. Tvennt blasir við sem ég vil lýsa yfir að mikilvægt sé að Alþingi allt jafnt sem hv. fjárlaganefnd verði að hyggja að af mikilli festu. Fyrra atriðið varðar álag á náttúru landsins, m.a. vegna vaxtar og skipulags ferðaþjónustunnar. Til viðbótar við framlög til þriggja gestastofa og til lagfæringa innan Þingvallaþjóðgarðs eru aðeins rúmar 500 millj. kr. lagðar til Framkvæmdasjóðs ferðamála. Svo eru 300 milljónir settar í eflingu flugþjónustu milli staða utan suðvesturhornsins og erlendra borga en framlög til rannsókna í ferðaþjónustu eru lækkuð. Hér þarf allt aðra hugsun og mikla innspýtingu í innviði og einnig aðgengi ferðamanna. Þar þarf að skoða nýja og bætta tekjustofna, svo sem eins og gistináttagjald umfram 300 kr., myndarleg komugjöld, ýmis þjónustugjöld o.fl. Ég kem vonandi að því við eitthvert annað tækifæri.

Síðara atriðið snýr að máli málanna á heimsvísu sem eru loftslagsbreytingar. Þegar ég blaðaði í gegnum þessar 600 síður held ég að ég hafi fundið þetta orð einu sinni. Það getur verið misskilningur en það var ekki víða í þessum ágætu bókum. Vel má vera að mörgum finnist margt mikilvægara en að hugsa um hitamæla þegar velferð í landinu er rétt við eða undir þolmörkum. En ef fer sem horfir getur okkur skort mikið fjármagn á endanum til velferðar ef hitafar jarðar fer langt fram úr mörkum Parísarsamkomulagsins. Þetta eru ekki pólitískar útskýringar heldur blákaldur, eigum við að segja rauðhlýr, raunveruleiki.

Herra forseti. Vegna horfa í framvindu loftslagsmála er afar brýnt að til verði fjármögnuð langtímaáætlun, og ég legg áherslu á orðið fjármögnuð, um minnkandi losun gróðurhúsagasa á Íslandi og aukna bindingu kolefnis. Þessa og nægilega kröftugra byrjunaraðgerða sakna ég í fjárlögunum. Framlög til nýrra orkulausna í samgöngum og meginatvinnuvegum eru of lág, framlög til skógræktar eru líka of lág og til endurheimtar landgæða og vistkerfa, svo einhver dæmi séu nefnd. Hvergi örlar á magntöku árangurs miðað við framlögin. Við hvað eru þau í raun og veru miðuð? spyr ég. Með öðrum orðum, fjárlög sem eiga að vera með langtímamarkmiðið klárt, sem er fallega og réttilega sagt eins og hæstv. fjármálaráðherra kom inn á, eru ekki hluti af marksettri aðgerðaáætlun um fullnustu þeirra skuldbindinga sem við höfum tekið að okkur.

Það er auðvelt að segja sem svo að ekki megi fara of geyst í fjárútlát eða að ekki megi ausa fé í gæluverkefni. Það hefur verið nefnt hér áður. Maður getur spurt sig hvort það sé gæluverkefni að konur geti fætt börn í Vestmannaeyjum eða hvort það sé gæluverkefni að slá út 102 millj. kr. fjárveitingu til lögreglueftirlits á Suðurlandi vegna öryggis bæði íbúa og ferðamanna. Ég held að þetta séu ekki gæluverkefni, þetta eru mikilvæg velferðar- og öryggisverkefni. Lagabreytingar að þessu leyti þurfa að koma til.

Loftslagsbreytingar eru dauðans alvara, þær eru heldur ekki gæluverkefni. Hvort sem eru breyttir skattar, ýmiss konar hækkun gjaldstofna eða breyttar áherslur í úthlutun fjármuna, sem við köllum forgangsröðun, eða önnur úrræði mega ekki vera afsökun fyrir því að spara á þessu sviði, þessu loftslagssviði, heldur þveröfugt, þau eiga að vera hvatning til að gera betur. Það kostar einfaldlega innheimtu fjármuna frá þeim sem eru aflögufærir ef við ætlum að bregðast af ábyrgð við milljónum ferðamanna sem reyndar setja okkur gestaþolmörk sem við þurfum bæði að ræða og marka, ég ætla að vona að ég hafi tækifæri til að ræða það betur síðar, eða bregðast við hættulegum umhverfisbreytingum sem kosta okkur miklar fjárhæðir náum við ekki að stemma stigu við þeim.

Ég óska eftir breytingum á fjárlagafrumvarpi 2017 sem horfa til verulegra framfara í þeim efnum sem ég hef nefnt en ekki bara dálítilla sem einhverjir afsaka með fjárskorti í samfélagi þar sem víða eru fjármunir aflögu sé horft af sanngirni, hvað sem líður óréttlátum tekjumun í þessu ágæta samfélagi okkar.

Talandi um sólskin og þakviðgerðir eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson gerði vil ég bara nefna að við verðum að vera raunsæ þegar við metum viðgerðarþörfina. Það er eitt. Annað er svo að okkur hættir til að gleyma eða jafnvel réttlæta að sólin skín býsna ójafnt á landsmenn. Úr því viljum við Vinstri græn bæta við fjárlagagerðina 2017 og vissulega í samvinnu við sem flesta hv. þingmenn.