146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:07]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 1. þm. Reykv. n., Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir ræðu hans. Hann kom inn á marga mjög áhugaverða hluti. Það er gaman þegar menn horfa aðeins út fyrir kassann og ég vonast til að við eigum eftir að ræða eitthvað af því í matsalnum og kannski í þingsalnum. Við höfum nú af og til átt orðaskipti á ýmsum sviðum í gegnum tíðina. Ég heyrði ekki betur en að hv. þingmaður talaði um að hann saknaði þess að við værum ekki að ræða það að lækka gjöld á ferðaþjónustuna til þess að treysta samkeppnisstöðuna, ég held að ég hafi skilið hann rétt. Mig langar þá til að spyrja hann hreint út: Hvaða gjöld eru það sem hv. þingmaður sér fyrir sér að séu lækkuð á ferðaþjónustuna? Telur hann að gjöld á ferðaþjónustuna í dag séu of há? Er hann andsnúinn því að sóttar séu auknar tekjur í ferðaþjónustuna sem nýttar verði í samneysluna? Mun hann beita sér fyrir því innan fjárlaganefndar að svo verði?