146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst kannski bara almennt. Ástæðan fyrir því að við höfum meiri fjármuni, miklu meiri fjármuni, í samneysluna er út af ferðaþjónustunni að stærstum hluta, og auðvitað fleiri atvinnugreinum, en stóra breytingin er hvað ferðaþjónustan hefur vaxið alveg gríðarlega á undanförnum árum. Þetta fer auðvitað í samneysluna, eins og virðisaukaskatturinn o.s.frv. Það fer allt í samneysluna. Hins vegar hélt ég að hv. þingmaður væri meira að vísa til þess að þegar við þurfum að fara í allra handa innviðauppbyggingu, hvernig við fjármögnum hana. Þegar ég keyri á mínum bíl þarf ég að borga fyrir bílastæði, ekki bara í Reykjavík, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur víðs vegar úti um landið, en ef ég myndi stoppa við einhvern ferðamannastað skil ég ekki af hverju ég þyrfti ekki að borga fyrir það líka. Það kostar að búa til bílastæði. Af hverju ætti einhver skattgreiðandi að borga fyrir það? Það er ferðamaðurinn sem nýtir sér það.

Ég ferðast mikið bæði út af áhugamálum og störfum og öðru slíku þannig að ég er ferðamaður líka ofan á ýmislegt annað. Hvar sem maður fer t.d. í Evrópu, og það sama á við í Bandaríkjunum, borgar maður alls staðar þar sem maður fer á snyrtingu. Í Sviss eru menn frekar nákvæmir, ég biðst velvirðingar, virðulegi forseti, maður borgar eina upphæð fyrir að gera númer eitt og aðra fyrir að gera númer tvö, ég er ekki að mæla endilega með því en þetta kostar allt saman og hví skyldi ekki ferðamaðurinn greiða fyrir það? Maður keyrir í gegnum Frakkland og borgar fyrir það sem ferðamaður. Ef ég borga ekki fyrir það sem ferðamaður þá munu franskir skattgreiðendur greiða fyrir það.

Við þurfum að vera með alvöruinnviðauppbyggingu. Sem betur fer, og það er grundvallaratriði, eru Íslendingar jákvæðir gagnvart ferðamönnum. Ég held að það geti snúist upp í andhverfu sína ef hækka þarf skatta á almenning í landinu til þess að fara að byggja upp til dæmis þá litlu þjónustu sem ég nefndi. En svo er náttúrlega stóra málið að vegna þess að við viljum ferðamenn þá eru meiri umsvif og það eru miklu meiri tekjur og við njótum þess í fjárlagafrumvarpinu í dag og á undanförnum árum.