146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svar við andsvari. Ég held við séum einmitt aðeins að nálgast kjarna málsins hérna. Þrátt fyrir að við fáum gríðarlega miklar tekjur í ríkissjóð og heilan helling af gjaldeyri — við höfum tölur um það, og góðar áætlanir — þá er mjög lítið veitt til uppbyggingar ferðamála í fjárlögum. Það er helst sá munur sem ég er að tala um, ákveðin upphæð kemur inn en lítið fer í málaflokkinn. Málaflokkurinn sem slíkur borgar undir miklu meira en það sem hann snýst um. Það er kannski allt í lagi, við viljum kannski að hvort tveggja sé þarna í gangi. Þetta er bara spurning sem við höfum ekki haft tækifæri til að pæla í af því að ferðaþjónustan hefur vaxið svo gríðarlega hratt á undanförnum árum. Þar hafa orðið til tekjur sem við vitum eiginlega ekki hvað við eigum að gera við og setjum í öll þau gæluverkefni sem okkur hefur hugnast og vantað pening í á undanförnum árum. Það er það sem ég er helst að pæla í. Það vantar kannski stefnumörkun sem næst einmitt með þessum nýju lögum um opinber fjármál þannig að við náum að tala um þetta á aðeins heildstæðari hátt.