146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því grunnstefi sem kemur frá hv. þingmanni. En þegar við hugsum um tekjurnar af ferðaþjónustunni þá er sumt sem við viljum sjá koma í almenna samneyslu, eins og virðisaukaskatturinn, tekjuskatturinn, tryggingagjaldið o.s.frv. Ef við förum hins vegar í útgjöldin, þá er eitt sem við eigum eftir að gera. Ef við sjáum aukinn kostnað í heilbrigðisþjónustunni þá erum við ekki að rukka rétt fyrir þjónustuna. Nokkurn veginn allir ferðamenn eru tryggðir og því erum við bara ekki með raunkostnað á bak við það.

Ég veit að við erum ekki með raunkostnað. Ef útlensk hjónaleysi vilja láta sýslumann gifta sig uppi á jökli þá fer heill dagur í það og þau borga 1.500 eða 2.000 kr. eða hvað það er. Við eigum eftir að laga okkur að þessum breyttu aðstæðum þannig að við séum ekki að bera kostnað sem við þyrftum ekkert að gera.

Síðan má hafa í huga að við erum öll ferðamenn í okkar eigin landi. Eru bættar samgöngur fyrir ferðamennina eða eru þær fyrir okkur? Auðvitað eru þær fyrir alla.

Mér finnst frábært að við séum að ræða þetta því að við gerum það mjög sjaldan. Samtök ferðaþjónustunnar eru mjög dugleg að vekja athygli á þessu, ég nefni góða fundaröð fyrir kosningarnar sem dæmi. Mér finnst uppbygging ferðaþjónustunnar vera fegurð einkarekstrarins í sinni tærustu mynd. Þú sérð endalaust af litlum einyrkjum, litlum fyrirtækjum; 80–90% af þessum fyrirtækjum eru lítil fyrirtæki, ekki einu sinni meðalstór. Um er að ræða fólk sem hefur jafnvel verið atvinnulaust eða á milli starfa, það hefur sýnt þann drifkraft að fara í allra handa þjónustu sem er algjörlega frábært.

Ég hefði viljað sjá að við gerum hvað við getum til þess að ýta undir þessa atvinnugrein og aðrar sambærilegar. Ísland er keyrt áfram af litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þaðan koma tekjurnar sem við notum í þessum fjárlögum.