146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið snörp umræða hér að þessu sinni við þær sérstöku aðstæður sem við búum við. Það hefur ekki komið á óvart að umræðan hefur snúist um stöðu opinberra fjármála, svona í ljósi þess hvar við erum stödd í efnahagsmálum í víðara samhengi. Hvernig tekjustofnar eru að þróast, hvaða svigrúm er að verða til. Eru þetta aðhaldssöm fjárlög? Erum við að ná markmiðum okkar í fjármálastefnunni? Hverjar eru skuldir ríkisins? Hvernig eru þær að þróast fram á við? Og þannig mætti áfram telja. Það er afskaplega mikilvæg umræða og það mætti gera meira af því að ræða þetta stóra samhengi hlutanna þegar fjárlög koma fram á Alþingi.

Menn hafa hins vegar tiltekið einstaka málaflokka sem von er og er sjálfsagður og eðlilegur hluti af fjárlagaumræðunni. Mig langar til að byrja á því að minna á að eins og ég rakti í framsöguræðunni þá eru fjárlögin að þessu sinni mjög því marki brennd að vera lögð fram af starfsstjórn. Við settum okkur í því ljósi mjög skýrt verklag um það hvernig fjárlagafrumvarpinu yrði stillt fram. Við töldum að okkur bæri fyrst og fremst að fylgja þeirri þingsályktun sem samþykkt var hér í ágúst um langtímastefnumörkun og skiptingu þess svigrúms sem er til staðar niður á málaflokka. Í öðru lagi voru teknar inn lögbundnar ákvarðanir og í þriðja lagi nokkrar ákvarðanir sem eru grundvallaðar á samþykkt ríkisstjórnarinnar út af ýmsum málum; mörg þeirra kannski minni háttar að umfangi í heildarsamhengi hlutanna en þurft hefur að ganga frá ýmsum mikilvægum málum.

Með þessu er ég að segja að í fjárlagafrumvarpinu voru ekki teknar þessu til viðbótar pólitískt stefnumarkandi ákvarðanir umfram það sem leiddi af samþykkt langtímaáætlunarinnar í sumar, sem aftur var samin síðastliðið vor. Þetta þýðir til dæmis að þegar menn benda á að ekki sé gert ráð fyrir fjármögnun greiðsluþátttökunnar þá á það sér meðal annars þessa skýringu. Sama gildir um það hversu strangt frumvarpið skilur eftir tiltölulega nýlegar breytingar í þingsályktun vegna samgöngumála og ég gæti haldið svona áfram.

Þess vegna lét ég þess sömuleiðis getið að þetta hlytu að verða þau atriði sem fjárlaganefnd myndi einkum fást við, að skoða þessa liði, einstök verkefni í nýlegri þingsályktun um framkvæmdaáætlun samgöngumála, ábendingar sem berast út af því hvernig gengur að undirbúa samninga um kaup á Vestmannaeyjaferju o.s.frv. Nú höfum við upplýsingar sem við höfðum ekki í sumar um það hvað bjóðendur í því útboði hafa boðið og hvað Vegagerðin metur mikilvægt í því efni.

Mig langar að koma stuttlega inn á annað atriði sem ég verð að viðurkenna að mér er hugleikið í vaxandi mæli. Þegar ég tók sæti í fjárlaganefnd á árinu 2003 var oft rætt um að nefndin vildi fá meiri aðgang að fjárlagabeiðnum ríkisaðila. Þetta var í föstum skorðum á þeim tíma, það hafði ekki tíðkast að nefndin fengi beinan aðgang að fjárlagabeiðnum ríkisaðila. Ég hygg að það sé þannig enn í grundvallaratriðum að verklagið er ekki það að opna öll vinnslukerfi Stjórnarráðsins eða fjármálaráðuneytisins vegna allra þeirra beiðna sem berast inn í kerfið. Samskipti við einstakar stofnanir áttu sér þá stað ýmist með umsögnum eða heimsóknum viðkomandi ríkisaðila til nefndarinnar. Reynt var í störfum nefndarinnar að leggja mat á það hvort viðbótarfjárþörf væri til staðar og eftir atvikum brugðist við því.

Á síðastliðnum árum hefur mér þótt það færast mjög í vöxt að ríkisaðilar snúi sér, jafnvel áður en rætt er við þingið, beint til fjölmiðla með sín mál. Fyrir nokkrum mánuðum sáum við til dæmis að háskólarnir vörðu talsverðu fé, með heilsíðuauglýsingum í blöðum, til að benda á að það skorti á að fjárveitingar væru í samræmi við væntingar þeirra sem þar fara fyrir. Sömuleiðis höfum við séð töluvert langt gengið í því að útlista og sundurliða fjárvöntun einstakra ríkisaðila, t.d. í heilbrigðiskerfinu, í fjölmiðlum. Áður var það þannig að þetta samtal átti sér fyrst og fremst stað við þingið og fjárlaganefnd í tengslum við fjárlagagerðina. Ég verð að koma þessu að hér vegna þess að mér finnst þetta ekki í öllum atriðum vera mjög heillavænleg þróun.

Allt það lagaumhverfi sem við störfum eftir byrjar í stjórnarskránni, um að ekkert gjald megi greiða nema fengist hafi fyrir því heimild í lögum. Síðan setjum við hér lög um fjárheimildir, fjárveitingar eru eftir það veittar í gegnum ráðuneytin. Lögin gera ráð fyrir að það sé ein frumskylda ríkisaðilanna að halda sig innan þeirra fjárheimilda sem Alþingi hefur ákveðið. En það þykir í dag ekki mikið tiltökumál að ríkisaðilar komi og geri grein fyrir því að viðkomandi stofnanir séu reknar með miklum halla og skömm sé að því fyrir land og þjóð að ekki skuli koma stórauknar fjárheimildir því til viðbótar. Hér verður Alþingi að spyrja sig: Hver dregur línuna? Hvað ætla menn að gera þegar ríkisaðilar koma fram eins og þeim beri ekki skylda til að hlíta lögum frá Alþingi í þessum efnum? Í mínum huga er það býsna alvarlegt mál.

Við vitum hvar skórinn kreppir þegar kemur að innviðunum og helstu samfélagsstoðunum um þessar mundir. Við erum nýkomin úr kosningabaráttu og við höfum átt langt samtal um þá hluti. Augljóslega í samgöngumálum, framkvæmdastigið er enn lágt. Það er mjög mikilvægt að við finnum leiðir til að auka viðhald í vegakerfinu. Við getum blessað okkur fyrir það að nú er hlýtt úti og það mun eitthvað létta á Vegagerðinni varðandi snjómoksturinn sem oft hefur kostað milljarða á undanförnum árum. Það verður þá vonandi eitthvað meira til í önnur viðhaldsverkefni og eftir atvikum stofnframkvæmdir. Þetta er risavaxið mál sem við munum þurfa að gefa aukinn gaum eins og komið hefur fram í umræðunni, m.a. út af stórauknum straumi ferðamanna til landsins.

Í menntamálum — já, ég las auglýsingarnar frá rektorunum. Ég tók eftir því að þeir sögðu að þá vantaði fé. Við hér höfum metnað til þess að háskólastigið, eins og önnur skólastig, sé fyllilega samkeppnisfært við það sem best gerist annars staðar. Í okkar langtímaáætlunum aukum við framlag á hvern nemanda allverulega, en við getum endalaust spurt okkur að því hvort nóg sé að gert. En mér finnst það ekki góð þróun að samtalið við viðkomandi ráðuneyti sé að færast frá þinginu. Þingið er að veita ráðuneytunum aðhald með samtalinu. Við erum Alþingi með þingbundinni stjórn, og hlutirnir eiga eftir atvikum, sérstaklega með stærri stofnanir, að gerast með milliliðalausu samtali fjárlaganefndar og viðkomandi ríkisaðila eða -stofnana. Við erum að færa okkur frá því fyrirkomulagi yfir í að ræða við ríkisaðila í gegnum fjölmiðla, það finnst mér ekki góð þróun. Og mér finnst það í raun alveg ótrúlega dapurlegt að skattfé sé varið í að kaupa auglýsingar fyrir ríkisaðila til að koma á framfæri sjónarmiðum sem eiga að rata beint til almennings. Mér finnst það stappa nærri því að menn líti þannig á að þingið sé ekki fulltrúi fólksins í landinu, að það þurfi að skauta fram hjá þinginu til þess að ná til fólksins í landinu.

Til að ljúka þessu með menntakerfið þá fengum við gott innlegg frá hæstv. menntamálaráðherra. Það er alveg skýrt að við erum að gera betur ár fyrir ár, en endalaust má velta fyrir sér forgangsröðuninni. Svo erum við með hið risavaxna verkefni sem er að gæta að heilbrigðisþjónustunni í landinu. Ég tek eftir því að forstjóri Landspítalans tekur mjög djúpt í árinni hvað varðar fjárlagafrumvarpið. Mig langar að koma einni ábendingu að og hún tengist meðal annars þessari breyttu framsetningu mála. Í fylgiritinu er gert ráð fyrir að rétt um 1.200 millj. kr. séu óskiptar á lið, kannski fyrst og fremst til að stytta biðlista á næsta ári. Þær eru af þeim ástæðum ekki þegar merktar Landspítalanum vegna þess að ráðuneytið mun áskilja sér tíma til að fara yfir hvernig þeim fjármunum verði best varið. En það gerðist að minnsta kosti á árinu 2016 að þeir fjármunir fóru að langmestu leyti til Landspítalans. Þá verður að hafa í huga, þegar rætt er um framlög til spítalans í þessum fjárlögum, að það er óskiptur liður upp á rúman milljarð.

Að öðru leyti hefur komið fram að spítalinn hefur talað um að það þurfi 12 milljarða en þar inni eru ýmiss konar liðir sundurliðaðir í góðri skýrslu sem spítalinn hefur verið að dreifa, sem ekki flokkast undir bráðnauðsynleg framlög vegna þess að komið hefur fram að spítalinn segir að þetta séu 12 milljarðar en þar af sé bráðnauðsynlegt að fá 5 milljarða og þar af er hallarekstur á yfirstandandi ári. Þetta verður fjárlaganefndin að fara vel yfir. Það er verulegur munur á 5 milljörðum og 12 milljörðum. Ég tala nú ekki um ef maður tekur tillit til óskiptra liða. Þá gætum við kannski verið að tala um innan við 4 milljarða eða rétt um 4 milljarða og 12 milljarða, það er mikill munur á því. 4 miljarðar er ekki há fjárhæð í samhengi þessara fjárlaga, 4 milljarðar er heldur ekki há fjárhæð í samhengi við heildarafgang fjárlaga að þessu sinni. Og 4 milljarðar eiga undir engum kringumstæðum að vera tilefni til þess að láta Íslendingum líða eins og heilbrigðiskerfið sé allt á hliðinni, það er algerlega fráleitt og óásættanlegt, þegar við erum að verja rétt um 200 milljörðum í heilbrigðismál.

Höfum líka í huga að í þessu fjárlagafrumvarpi munum við auka við framlög til almannatrygginga um 22 milljarða á næsta ári umfram það sem á við á þessu ári. 8,5 milljarðar stafa af því að laun hækka og bætur hækka til samræmis við launaþróun í landinu. Það eru 8,5 milljarðar. Það kemur beint fram í hærri bótum. Rúmir 2 milljarðar koma fram í því að lýðfræðileg þróun leiðir til þess að fleiri eiga réttindi í kerfinu. Rúmlega 100 milljónir tengjast betri ökutækjastyrk og 11 milljarðar nýlegum lögum héðan frá Alþingi. Samtals gera það 22 milljarða sem við höfum ákveðið, í þessu fjárlagafrumvarpi, að verja til almannatrygginga umfram það sem gilti á árinu 2016. Það er söguleg hækkun. 22 milljarðar — ja, ef við setjum það í samhengi við það sem Landspítalinn segir að sé bráðnauðsynlegt er það rétt um það bil fjórum sinnum sú tala.

Þetta ættu menn að hafa í huga þegar verið er að velta fyrir sér hvernig við erum á hverjum tíma að forgangsraða. Við getum ekki gert allt í einu. Ef við ákveðum að setja 22 milljarða í einn málaflokk eru þeir ekki aftur til ráðstöfunar í aðra málaflokka. Þetta vildi ég hafa sagt hér undir lok umræðunnar sem mér finnst hafa verið málefnaleg, allt rétt sem sagt hefur verið um tímaþröng sem við búum við. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom inn á það hér að þingið væri í verulegum vanda við að komast yfir að kynna sér og taka við ábendingum og umsögnum, en ég finn að það munu allir gera sitt besta til að málið gangi upp og ég óska nefndinni velfarnaðar.